2002-02-11 18:25:36# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[18:25]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi stjórnun hjá opinberum stofnunum þá held ég að hún megi mikið batna og að borga megi bæði hærri laun og fækka fólki.

Varðandi afstöðu mína til Kárahnjúkavirkjunar, þá hef ég margoft sagt að Íslendingar hafi ekki efni á því að láta árnar renna óbeislaðar til sjávar og ónýttar þannig að það á að beita öllum ráðum að virkja þessa auðlind okkar þjóðinni til hagsbóta. Ég mun því greiða því atkvæði að farið verði út í Kárahnjúkavirkjun og ég treysti því að þeir aðilar sem þar koma að, Landsvirkjun sem er kosin af Alþingi, standi vörð um ávöxtunarkröfuna og arðsemina. Ef Landsvirkjun kæmi ekki inn í þetta, þá tel ég, eins og ég sagði áðan, að þeir vextir sem þessi virkjun þyrfti að greiða yrðu lítið hærri en það sem ríkið þarf að greiða. Það kom nefnilega í ljós þegar Fiskveiðasjóður var einkavæddur.