2002-02-11 18:50:56# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[18:50]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála mörgu því sem hv. þm. talaði um. Undir lokin í ræðu sinni talaði hann um skólamál og nám í heimabyggð. Ég er svo sannarlega sammála því sem hann sagði um það en ég tel að til þess að hægt sé að koma slíkum hlutum á sé stækkun sveitarfélaganna algert grundvallaratriði. Mér hefur ekki fundist á hv. þm. Vinstri grænna að þeir væru tilbúnir að taka alvarlega á hvað það mál varðar. Augljóst er að það verður að gerast með mjög skilvirkum og ákveðnum hætti af hálfu hins opinbera, að koma á sveitarfélögum sem ráða við alla þessa þjónustu. Auðvitað mundu atvinnumálin líka koma þar inn. Yfirleitt er staðið myndarlegar að atvinnumálum eftir því sem byggðarlögin eru stærri, ef á þarf að halda. Það höfum við séð þegar að hefur kreppt.

En mig langaði til að tala um annað, hæstv. forseti, þ.e. það sem hv. þm. sagði í upphafi ræðu sinnar. Þá fór hann að tala um að hann vildi hafa einn banka fyrir landið sem ríkið ætti og ætti að veita þjónustu. Við erum með slíkt fjármálafyrirtæki á vegum Byggðastofnunar. Ég tel fráleitt, í því samkeppnisumhverfi sem búið er að skapa á fjármálamarkaði, að ríkið geti rekið fjármálafyrirtæki af þessu tagi öðruvísi en að eiga á hættu að brjóta í bága við samkeppnisumhverfið sem menn vilja hafa. Ég tel að núorðið sé þetta fráleitur möguleiki.