2002-02-11 19:38:23# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[19:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mikill misskilningur hjá hv. þm. Ég var fyrst og fremst að vísa í ummæli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar.

Ljóst er að stóriðja á Grundartanga hefur skapað mörg atvinnutækifæri og haft mikil áhrif á atvinnulífið. Það er líka deginum ljósara að virkjun og stóriðja á Austurlandi mun skapa fjöldann allan af störfum og skapa gjaldeyristekjur.

Ég mæli hins vegar gegn því að þessi leið verði farin til að ná því markmiði. Ég tel að henni fylgi alvarlegar hliðarverkanir, auk þess sem ég hlusta á röksemdir hagfræðinga sem vara við því að við setjum svo mikla fjármuni í þessar fjárfestingar. Þær munu koma í bakið á okkur.

Ég frábið mér að við séum að snúa út úr hvert fyrir öðru að þessu leyti. Ég hef aldrei farið í grafgötur um þetta. Að sjálfsögðu verða til störf en við teljum þessa leið til að skapa þau óhagkvæma, þjóðhagslega óhagkvæma, auk þess sem hún felur í sér stórfelld óafturkræf náttúruspjöll.