Verðbréfaviðskipti

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 13:36:46 (4422)

2002-02-12 13:36:46# 127. lþ. 75.2 fundur 363. mál: #A verðbréfaviðskipti# (innherjaviðskipti) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[13:36]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti, 363. máli á þskj. 527. Í frv. eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti að því er varðar innherjaviðskipti til þess að taka af tvímæli um að þeim sem búa yfir trúnaðarupplýsingum sé óheimilt að afla eða ráðstafa þeim verðbréfum sem trúnaðarupplýsingar tengjast, óháð því hvort um ásetnings- eða gáleysisbrot er að ræða. Ákvæði núgildandi laga er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Innherjum er óheimilt að nýta trúnaðarupplýsingar, beint eða óbeint, til öflunar eða ráðstöfunar verðbréfa, ...``

Ákvæði þetta styðst við orðalag 2. gr. tilskipunar EB nr. 89/592, um innhverjaviðskipti.

Hinn 29. október sl. var hins vegar kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í sakamáli nr. 601/2001. Málið fjallaði um meint brot gegn umræddri grein. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að fyrir hendi væri það refsiskilyrði í gildandi ákvæði að trúnaðarupplýsingar yrðu að vera ákvörðunarástæða fyrir viðskiptunum, samanber orðasambandið ,,nýta ... til öflunar``. Yrði ákvæðið ekki skilið öðruvísi en svo að í því væri áskilinn beinn og eindreginn ásetningur. Þegar borin væru saman umrædd ákvæði í lögum um verðbréfaviðskipti og hliðstæð ákvæði í danskri, norskri, sænskri og bandarískri löggjöf vekti það athygli að ótvíræður munur væri að þessu leyti á hinu íslenska ákvæði og erlendu lagaákvæðunum þar sem huglæg afstaða þess sem í hlut á virtist ekki skipta máli að þessu leyti eða a.m.k. væri þar ekki krafist meira en gáleysis. Ríkissaksóknari hefur tekið ákvörðun um að máli þessu verði ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

Ég tel að skoðun á forsögu gildandi ákvæðis leiði í ljós að löggjafinn hafi aldrei ætlað að mæla fyrir um að ásetningur væri skilyrði refsinæmis í þessu tilliti. Þvert á móti tel ég að ætlun löggjafans hafi verið að fylgja norrænum rétti í þessu efni. Þar sem komist hefur verið að þeirri niðurstöðu í héraðsdómi að beinn og eindreginn ásetningur sé skilyrði refsinæmis fyrir brot gegn 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga um verðbréfaviðskipti og þar sem ákveðið hefur verið að áfrýja ekki þeim dómi tel ég að löggjafinn verði að taka af tvímæli um að gáleysi sé nægileg forsenda refsinæmis í þessu sambandi. Því er frv. þetta lagt fram.

Við samningu frv. hefur verið höfð hliðsjón af erlendum ákvæðum laga um innherjaviðskipti. Telja verður að vafa um hliðstæðu þeirra við íslensk ákvæði um sama efni hafi verið eytt með frv. þessu.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og hv. efh.- og viðskn.