Verðbréfaviðskipti

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 13:45:17 (4426)

2002-02-12 13:45:17# 127. lþ. 75.2 fundur 363. mál: #A verðbréfaviðskipti# (innherjaviðskipti) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar athugasemdir sem komu fram hjá minni hlutanum þegar þetta mál var til umfjöllunar í efh.- og viðskn. lutu þær ekki að því ákvæði, að því er ég best veit, sem þetta mál varðar fyrst og fremst, að það þurfi að hafa verið um ásetning að ræða af hálfu einstaklings sem á viðskipti og býr yfir trúnaðarupplýsingum. En það er mál sem þeir hv. þm. sem þarna áttu í hlut geta áreiðanlega skýrt nákvæmar. Að því er mér virðist er það ekki. Auðvitað er alltaf erfitt fyrir okkur á hv. Alþingi að fullyrða nákvæmlega hvað veldur því að dómur fellur sem raun ber vitni. Niðurstaða dómsins virðist vera að þarna hafi verið um gáleysi að ræða, að viðkomandi aðili hafi búið yfir trúnaðarupplýsingum en hafi ekki ætlað sér að hagnast á viðskiptunum þó að raunin hafi svo orðið sú að hann hagnaðist.

En frv. þetta er flutt til að taka af allan vafa hvað það varðar um að nægilegt sé að búa yfir þessum trúnaðarupplýsingum og eiga viðskipti, og þá séu menn að ganga gegn lögunum. Sem sagt, gáleysi getur hvorki verið afsökun né skýring.