Rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 13:59:52 (4431)

2002-02-12 13:59:52# 127. lþ. 75.4 fundur 489. mál: #A rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta# (EES-reglur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu sem er 489. mál á þskj. 774.

Frv. er ætlað að skýra réttarstöðu þeirra sem veita svokallaða rafræna þjónustu, en innan hennar getur t.d. fallið upplýsingaþjónusta og sala á netinu.

Meginstoðir frv. eru fjórar. Í fyrsta lagi er kveðið á um að íslensk stjórnvöld skuli hafa eftirlit með þeim veitendum rafrænnar þjónustu sem hafa staðfestu hér á landi, þ.e. stunda hér virka atvinnustarfsemi ótímabundið í fastri starfsstöð.

Í öðru lagi er kveðið á um þær upplýsingar sem þjónustuveitendum ber að veita, t.d. á heimasíðum sínum. Bæði er kveðið á um almenna upplýsingagjöf og upplýsingagjöf í tengslum við pöntun.

Í þriðja lagi er kveðið á um þá meginreglu að rafrænir samningar séu jafngildir skriflegum.

Í fjórða lagi er kveðið á um takmörkun ábyrgðar þeirra þjónustuveitanda sem veita aðgang t.d. að netinu og hýsa gögn sem þar er dreift.

Með rafrænni þjónustu er átt við þá þjónustu sem almennt er veitt gegn greiðslu úr fjarlægð með rafrænum búnaði að beiðni þess einstaklings sem þiggur þjónustuna. Frv. byggir á tilskipun Evrópusambandsins frá 8. júní 2000, um rafræn viðskipti og gerir tillögu að innleiðingu hennar í íslenskan rétt. Kjarni frv. felst í upprunalandsreglunni sem kemur fram í 3. gr. frv. Hún felur í sér að íslensk stjórnvöld skuli hafa eftirlit með að stofnun og starfræksla þjónustuveitanda með staðfestu hér á landi sé í samræmi við íslensk lög. Þannig skulu þeir sem stunda virka atvinnustarfsemi ótímabundið í fastri starfsstöð hér á landi hlíta íslenskum lögum um stofnun og starfrækslu þjónustunnar þó svo þeir beini þjónustunni að öðrum löndum með því t.d. að hafa heimasíðu sína á ensku.

Samkvæmt 4. gr. frv. eru nokkrar almennar undantekningar gerðar frá reglu upprunalands. Ástæða þeirra felst m.a. í því að á nokkrum sviðum er gildandi Evrópuréttur ekki í samræmi við upprunalandsreglu. Í þeim tilvikum þurfa þjónustuveitendur jafnvel að hlíta þeim reglum sem gerðar eru í þeim löndum sem þeir beina þjónustu sinni til.

Frv. kveður einnig á um að í sérstökum undantekningartilfellum geti aðildarríki sett takmarkanir á veitingu rafrænnar þjónustu frá öðru aðildarríki sé það nauðsynlegt til að vernda mikilvæga almannahagsmuni. Þannig má t.d. ætla að íslensk stjórnvöld geti hindrað útbreiðslu barnakláms þó svo það eigi uppruna sinn í öðru landi en Íslandi.

Til að styrkja réttaröryggi og traust manna til rafrænnar þjónustu er í frv. kveðið á um lágmarksupplýsingar sem þjónustuveitendum ber að veita. Er þar t.d. kveðið á um að þjónustuveitendum beri að veita upplýsingar um nafn sitt, heimilisfang og aðrar þær upplýsingar sem gera mönnum kleift að komast í samband við þá. Tilskipun um rafræn viðskipti leggur þær skyldur á herðar aðildarríkjunum að þau tryggi að heimilt verði að lögum að samningar séu gerðir með rafrænum hætti. Aðildarríki skulu þannig tryggja að gildandi lög tálmi ekki fyrir gildi rafrænna samninga.

Talið hefur verið að nokkur vafi leiki á því hvort rafrænir samningar fullnægi skilyrðum réttarreglna um að samningar skuli vera skriflegir. Því er í frv. lagt til að lögfest verði almenn fyrirmæli um að ákvæði um skriflega samninga komi ekki í veg fyrir að unnt sé að gera þá með rafrænum hætti.

Ákvæði frv. kveða á um hvaða upplýsingar þjónustuveitanda ber að veita áður en þjónustuþegi leggur inn pöntun. Honum ber t.d. skylda til að upplýsa um hvaða skref menn verða að taka til að ljúka pöntun, hvernig unnt sé að leiðrétta innsláttarvillur o.s.frv.

Í frv. er loks ákvæði um takmörkun ábyrgðar þjónustuveitenda sem veita tiltekna þjónustu, þ.e. eru svokallaðir milligönguaðilar. Í 12. gr. er fjallað um takmörkun ábyrgðar þjónustuveitanda sem miðlar gögnum um fjarskiptanet eða veitir aðgang að fjarskiptaneti. Í 13. gr. er kveðið á um takmörkun ábyrgðar sambærilegs þjónustuveitanda vegna sjálfvirkrar millistigs- og skammtímaeymslu gagna. Í 14. gr. er loks kveðið á um takmörkun ábyrgðar þeirra þjónustuveitenda sem hýsa gögn. Í umræddum tilvikum eru gögn látin í té af þjónustuþega. Þjónustuveitandi hefur því hvorki vitneskju um né yfirráð yfir þeim gögnum sem eru send, geymd eða hýst.

Í 15.--18. gr. frv. er kveðið nánar á um hvernig þjónustuveitanda ber að bregðast við ef hann fær vitneskju um ólögmæt gögn. Í greinunum hefur verið tekið tillit til þeirra hagsmuna sem vegast á í þessu sambandi, annars vegar tjáningarfrelsis og frekari þróun rafrænnar þjónustu og hins vegar mikilvægi þess að koma á skilvirkan hátt í veg fyrir útbreiðslu ólögmæts efnis.

Hæstv. forseti Ég mæli með því að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.