Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 14:21:05 (4439)

2002-02-12 14:21:05# 127. lþ. 75.5 fundur 43. mál: #A samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs# þál., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Það mál sem ég mæli fyrir í dag og heitir Tillaga til þingsályktunar um bætta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs, er mál nr. 43 á þskj. 43. Af því að við erum að ræða stjórnarmál sem hafa töluna 400 og eitthvað sjá menn glöggt hvert misgengi er á málum. Loksins er þetta mál þó komið á dagskrá og hægt að mæla fyrir því. Tillagan er eftirfarandi:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna möguleika á stofnun uppbyggingarsjóða sambærilegra þeim sem Evrópusambandsríkin og Noregur hafa til að efla atvinnu á tilteknum svæðum, endurskipuleggja atvinnulífið og styrkja samkeppnisstöðu þess.

Að lokinni slíkri athugun verði skýrsla og tillögur lagðar fyrir Alþingi, eigi síðar en í mars 2002.

Herra forseti. Hér sést aftur að í bláeygri bjartsýni var þessi tillaga sett saman eða lögð inn snemma hausts og gert ráð fyrir að hún yrði afgreidd fyrir jól. En nú er sem sé að koma miður febrúar þannig að eitthvað þarf að laga ef tillagan verður samþykkt.

Íslensk stjórnvöld hafa lýst því yfir að ekki sé áhugi fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið en sú krafa stendur þó á stjórnvöld að búa íslensku atvinnulífi sambærileg kjör þeim sem atvinnulífinu eru búin annars staðar í Evrópu. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum aðallega verið upptekin af skattaumhverfi atvinnulífsins, og breytingar á því gjarnan útskýrðar eða réttlættar með samkeppnisstöðu gagnvart öðrum löndum. Þetta heyrðum við og urðum vör við fyrir jólin þegar verið var að breyta skattalögum. Þá var lækkun tekjuskatts fyrirtækja niður í 18% einmitt réttlætt með samkeppnisskírskotun.

En fleiri þættir hafa áhrif á samkeppnisstöðuna, einkum ef við viljum skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið og ná nýjum atvinnufyrirtækjum og tæknikunnáttu inn í landið. Evrópusambandið er með mjög öfluga uppbyggingarsjóði og það er eðlilegt að líta til þess, herra forseti, vegna þess að það hafa Norðmenn gert og eru búnir að laga byggðastefnu sína, má segja, að reglum Evrópusambandsins. Á framkvæmdatímabili núgildandi áætlunar Evrópusambandsins sem nær frá 2000--2006 mun sambandið verja 213 milljörðum evra til svæðaþróunar og er þar um að ræða um 30% af heildarútgjöldum sambandsins.

Hugmyndafræðin á bak við þessa byggðastefnu er að efla verði svæði sem standa höllum fæti með það að markmiði að örva efnahagsþróun þeirra. Við höfum ekki farið þessa leið með sama markvissa hættinum, herra forseti, en ég er að vísa til þess sem gert er hjá Evrópusambandinu og í Noregi vegna þess að ég lít svo á að það séu í rauninni þau viðmið sem við þurfum að hafa. Við erum aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði og erum í samkeppni við fyrirtæki á þessu svæði. Norðmenn hafa, eins og ég sagði, einnig byggt upp öflugan sjóð sem veitir stofnstyrki til uppbyggingar atvinnulífinu á þeim grundvelli að þeir ákváðu að hafna aðild að Evrópusambandinu. Fyrirmynd þess sjóðs er byggðaþróunarsjóðurinn þannig að það er eðlilegt að líta bæði til þess sem þar er gert og í Noregi.

Í dag eru einhverjir peningar veittir til styrktar atvinnulífi og það kom fram, herra forseti, á þskj. 248 sem er svar við fyrirspurn hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um styrkveitingar úr opinberum sjóðum til atvinnuuppbyggingar að á árinu 1998 eru alls 230 millj. veittar til slíkra styrkja til atvinnusköpunar úr sjóðnum Átak til atvinnusköpunar og í gegnum Byggðastofnun. Kísilgúrsjóður er reyndar líka nefndur til en hann er smár eins og menn þekkja. Árið 1999 var þessi upphæð komin upp í 298,5 millj. og árið 2000 var hún í 198 millj. Þetta eru nokkrar sveiflur.

Það er líka athyglisvert að skoða hvert þessir styrkir fara. Ég hygg að ýmsum þætti það til skoðunar að af þeim fjölda styrkja sem veittir eru fer nokkuð stór hluti til Reykjavíkur og Reykjaness. Þetta eru styrkveitingar Byggðastofnunar. Til Reykjavíkur fóru tæplega 40 millj. á þessu árabili sem ég var að fara yfir áðan og til Reykjaness um 27 millj. eða samtals til Reykjavíkur og Reykjaness ríflega 66 millj. kr. Við getum svo sem velt fyrir okkur hvernig standi á þessu eða hvernig þetta gerist en a.m.k. liggur það fyrir að styrkir Byggðastofnunar fara ekki síður til Reykjavíkur og Reykjaness heldur en annarra svæða landsins miðað við þessar upplýsingar.

Vegna þeirra miklu breytinga sem hafa orðið á atvinnuháttum er auðvitað mikilvægt að stjórnvöld geti mótað og fylgt eftir skilvirkri stefnu um það hvernig við skuli brugðist á hverjum tíma. Iðnrn. hefur skilgreint landið með tilliti til möguleika hvers svæðis og ESA samþykkti nýverið nýtt byggðakort fyrir Ísland. Það er ástæða til að taka það fram vegna þeirra upplýsinga sem ég var með áðan um styrkveitingar Byggðastofnunar til Reykjavíkur og Reykjaness vegna þess að þau svæði eru ekki inni á byggðakortinu. Þetta byggðakort gildir frá ágúst sl. til ársloka 2006. Slíkt kort er talið grundvöllur byggðaaðgerða, bæði við núverandi aðstæður og einnig ef niðurstaðan yrði að stofna til uppbyggingarsjóða á Íslandi.

Í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið fékkst undanþága frá því ákvæði að atvinnuleysi þyrfti að vera af tiltekinni stærð til að beita mætti byggðaaðgerðum. Hér á landi eru hins vegar stór og strjálbýl svæði með einhæft atvinnulíf sem uppfylla mundu styrkjaákvæðin. Það eru þau ákvæði sem afmarka í rauninni það byggðakort sem ESA samþykkti gagnvart Íslandi. Það fer eftir því hversu þéttbýlt eða öllu heldur strjálbýlt landið er, og þá hversu strjálbýlt það er á einstökum svæðum.

Það er mikilvægt, herra forseti, að gagnsæjar reglur gildi og að fagleg vinnubrögð verði viðhöfð til að þessi aðferð virki með tilætluðum hætti. Evrópusambandið gerir strangar kröfur og það gerir norski sjóðurinn SND líka. Sú stefna að veita stofnstyrki að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og á jafnréttisgrundvelli þannig að allir sem eins er ástatt um á sama svæði eigi rétt til þeirra er sú leið sem stjórnvöld í helstu samkeppnislöndum okkar hafa valið til að geta markað og rekið árangursríka byggðastefnu og til að einstök svæði geti tekist á við breytingar eða þróun sem á sér stað í tilteknum atvinnugreinum. Með þessum hætti hafa Evrópusambandsríkin t.d. líka tekist á við endurnýjun atvinnulífsins á svæðum sem dregist hafa aftur úr í tækniþróun.

Herra forseti. Dæmi eru um fyrirtæki sem von var um að stofnsett yrðu hér á landi en hafa endað í öðru landi sem býður stofnstyrki í samræmi við þær leikreglur sem við verðum að sætta okkur við að aðrar þjóðir viðhafi þó að við höfum ekki tekið þær upp sjálf. Við, flutningsmenn þessarar tillögu, teljum rétt að upptaka uppbyggingarsjóða stofnstyrkja verði könnuð með tilliti til þess að samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs verði sem best.

[14:30]

Í nýrri byggðaáætlun, herra forseti, sem við þingmenn getum nálgast á netinu, er fjallað lítillega um hvernig menn vilji beita opinberum sjóðum sem vinna að eflingu atvinnulífsins. Í því sem þar er að finna kemur mest á óvart hve óljós sú umfjöllun er og lítt markviss og virðist ekki hugsuð til enda. Heiti tillögunnar er Aukin samvinna opinberra sjóða sem vinna að eflingu atvinnulífsins. --- ,,Aukin samvinna,`` herra forseti. Hér er ekki um mjög beinskeytt heiti að ræða. Meginhugmyndin er að auka samvinnu ákveðinna sjóða, þ.e. Ferðamálasjóðs, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Lánasjóðs landbúnaðarins, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og lánastarfsemi Byggðastofnunar og átak til atvinnusköpunar, þ.e. annar sjóðurinn sem ég fjallaði um hér áðan. Markmiðið á að vera að samþætta krafta þessara opinberu sjóða og Byggðastofnun á að bera ábyrgð á framkvæmdinni.

Þessi tillaga gengur út frá tímaáætlun frá 2002--2005. Út af fyrir sig er hún góðra gjalda verð en, herra forseti, ég hafði gert mér vonir um að þetta mál kæmi betur unnið inn í byggðaáætlun. E.t.v. verður það hlutverk hv. iðnn. að setja málið í þann búning að við færumst nær því að vinna eins og þeir grannar okkar sem við berum okkur saman við. En mér sýnist það sem hér kemur fram ekki vera þess eðlis að það auki bjartsýni á að við séum á leiðinni til markvissrar beitingar þessara sjóða.

Það er út af fyrir sig gott að samþætta krafta þessara sjóða en mér finnst að menn ættu að ganga örlítið djarfar að þessu en að auka samvinnu. Af hverju segja menn ekki hreint út að þeir vilji sameina þessa sjóði til að gera þá eitthvað úr þeim og reyna síðan að vinna út frá því? Er hér er enn á ferðinni einhvers konar hrepparígur innan kerfisins og því þori menn ekki að ganga þannig til verks að um muni? Það þekkja allir sem kannast við þessa sjóði að hver um sig er kannski ekki mikils megnugur en saman gætu þeir hins vegar komið að mun meira gagni, væri þeim beitt markvisst. Þá væri líka möguleiki á því að sú forgangsröðun sem menn vilja að öðru leyti sjá í byggðaáætlun gæti notið þeirra fjármuna sem þar væru til reiðu.

Menn sjá af nöfnum þessara sjóða að sumir þeirra tilheyra landbúnaði en við erum ekki síst að hugsa um, þegar við veltum fyrir okkur byggðaáætlun fyrir næstu ár, hvernig við getum stutt fyrirtæki og einstök landsvæði til að takast á við framtíð sem felst ekki síður í annars konar atvinnulífi en hefur verið. Við viljum að möguleikar landsvæðanna séu jafnaðir og þau geti tekist á við það sem menn kalla stundum nýtingu hins nýja hagkerfis.

Ég vildi nefna þetta við þessa umræðu, herra forseti, vegna þess að mér virðist ómögulegt annað en að hlutirnir séu teknir fastari tökum. Miðað við það sem ég hef kynnt mér og miðað við þá umræðu sem orðið hefur, þær tillögur sem hafa komið og hugmyndir frá ýmsum þeim sem vinna að atvinnumálum, finnst mér þessi hugmynd eins og hún er reifuð í byggðaáætlun alls ófullnægjandi.

Herra forseti. Tillaga sama efnis var flutt á 126. þingi en varð ekki útrædd og er því endurflutt nú. Ég legg til að þegar að þessari umræðu lokinni verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. iðnn.