Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 14:35:05 (4440)

2002-02-12 14:35:05# 127. lþ. 75.5 fundur 43. mál: #A samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar till. til þál. um bætta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs, sem felur í sér að komið verði á stofn uppbyggingarsjóði sem er sambærilegur sjóðum sem eru til í Evrópusambandsríkjum og í Noregi. Greinilegt er að það hefur borið mikinn árangur og góðan ávöxt að þessir sjóðir í Evrópusambandsríkjunum og í Noregi hafa verið settir á laggirnar. Það hefur sýnt sig hjá fyrirtækjum sem hafa verið að byrja starfsemi og reyna að komst á legg og fengið fjármagn úr þessum sjóðum að það hefur riðið baggamuninn. Þau hafa fyrir vikið komist á fætur, ef svo má að orði komast, og verið með myndarlega starfsemi. Í Norður-Noregi, nálægt Bodø, er stór verksmiðja sem hefur það verkefni að framleiða kísilflögur í tölvur, sem eru seldar út um allan heim. Þessi mikla verksmiðja framleiðir líka kísilklumpa, stóra kristalla, og selur út um alla veröld. Þetta fyrirtæki komst á laggirnar einmitt fyrir tilstuðlan þess að SND í Noregi lagði fram töluvert fjármagn í þetta. Ef það hefði ekki verið gert hefði þetta merka og góða fyrirtæki aldrei komist á legg.

Hjá okkur Íslendingum vantar að mörgu leyti slíka jákvæðni í garð frumkvöðla og líka þeirra sem vilja koma á stofn fyrirtækjum út um land. Í raun skortir það sem kallað er startkapítal, sem er mjög gott að hafa til að byggja upp fyrirtæki.

Í dag sækja menn mjög mikið í lánasjóði við stofnun fyrirtækja. Þessi fyrirtæki eru kannski rétt komin í gang þegar rukkanir fara að hrannast inn og vísitöluþungi lánanna leggst á, eins og við sjáum gerast í ferðaþjónustunni núna sem skuldar mikinn pening vegna gífurlegrar gengisfellingar undanfarið. Það hefur komið ferðaþjónustunni afar illa, fyrirtækjum hérna innan lands sem eru kannski ekki að fá tekjur beint í dollurum eða erlendri mynt. Þetta hefur jafnvel skapað hættuástand sums staðar. Þó að gengisþróunin hafi komið sjávarútveginum vel getur maður velt fyrir sér hvort verið sé að flytja fjármagn frá einni atvinnugrein til annarrar á þennan hátt. En um það má ræða á öðrum vettvangi og af öðru tilefni.

Hér er sem sagt verið að ræða um það að koma af stað sjóði sem á að skjóta styrkari stoðum undir atvinnulífið á landsbyggðinni, eins og segir í greinargerð. Þetta vekur okkur til umhugsunar um stöðu ýmissa byggða sem hafa misst kvótann til að veiða þegar hann hefur verið seldur annað, leigður eða eitthvað. Þá hefur fólk misst atvinnuna og væri aldeilis gott ef til væru önnur fyrirtæki sem fólk gæti fengið vinnu við.

Ég minnist þess að í kosningabaráttunni síðast á Vestfjörðum hörmuðu ýmsir ekkert svakalega mikið, þ.e. þeir litu ekki á það sem aðalvanda byggðanna, að kvótinn væri að fara því ný fyrirtæki mundu spretta upp. Í því sambandi varð mönnum tíðrætt um fjarvinnslu. En því miður varð minna úr styrk þeirra fyrirtækja en til stóð. Kannski hefði verið betra ef slíkur sjóður sem við erum að leggja til í þessari þáltill. og 1. flm. hennar, hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, mælti hér fyrir áðan, hefði verið orðinn að veruleika. Þá má leiða líkur að því að meiri bjartsýni ríkti á landsbyggðinni.

Töluvert hefur verið rætt um byggðamál undanfarna daga, sérstaklega þessa nýju byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem á að gilda frá árinu 2002--2005. Nú er liðið á annan mánuð ársins 2002, senn kemur mars og svo kemur apríl, þannig að það er eins gott að menn fari að taka þessa byggðaáætlun til umfjöllunar í þinginu. Ég tek undir með hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að þar vantar þá framsæknu hugsun sem sífellt er verið að tala um að á þurfi að halda til að koma fyrirtækjum á stofn, þ.e. að það sé gert það myndarlega að þau séu ekki komin á kné nánast um leið og þau taka til starfa.

Herra forseti. Ég held að þetta sé mjög gott innlegg í umræðuna um byggðamál. Ég teldi það vera mjög gott og jákvætt ef þess þáltill. yrði samþykkt eins og hún kemur fyrir, eða þá hreinlega að hún yrði tekin inn í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar 2002--2005, þar sem tekið væri myndarlega á ýmsum fyrirtækjum. Við getum hugsað okkur t.d. kræklingaeldi sem menn eru að hefja, ég leyfi mér að nefna í Arnarfirði. Það væri nauðsynlegt og gott að slík starfsemi fengi fjármagn, að styrkir fengjust til þess nýja atvinnuvegar til að geta hafið starfsemi áhyggjulaust, fremur en að verkefnið búi við vanefni og áhyggur. Það mundi skipta gífurlega miklu máli fyrir þjóðarhag og þjóðarbú ef slík fyrirtæki og starfsemi fengi styrki eins og hér um ræðir.