Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 14:48:39 (4442)

2002-02-12 14:48:39# 127. lþ. 75.5 fundur 43. mál: #A samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs# þál., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[14:48]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um að við ættum ekki að sækja fyrirmyndir til Noregs eða annarra Evrópulanda af því að atvinnuleysi væri þar svo mikið. En það er ekki endilega samasemmerki þar á milli. Alveg eins má varpa því upp að miklu meira atvinnuleysi væri í Evrópu, þar með talið í Noregi, ef slíkir styrkir hefðu ekki verið veittir. Ég leyfi mér að vitna aftur í það dæmi sem ég nefndi áðan um kísilverksmiðjuna sem er í Norður-Noregi. Það er eiginlega þúsund manna byggð í kringum hana. Og hún varð einmitt til vegna þess að ákveðnir stofnstyrkir voru lagðir í hana.

Ég held að það mundi skipta miklu máli fyrir t.d. Arnarfjörð og byggðina þar ef einhver opinber aðili legði fram fé, þótt ekki væri nema 3 millj. kr. stofnstyrk, í kræklingaeldi þar. Þar er fólk sem hefur þekkingu á hlutunum, þekkir landslagið, býr þarna og hefur alla möguleika til að gera þetta.

Er samasemmerki á milli þess að vinna hjá opinberum aðilum og að vera óheiðarlegur? Hvernig ber mér að skilja orð hv. þm.? Ef fólk vinnur hjá opinberum stofnunum, bönkum og víðar, er þá víst að það sé óheiðarlegt fólk sem hugsi ekki með ráðdeild um það sem því er trúað fyrir? Þyrfti að einkavæða hvert einasta prestakall á landinu til að tryggja það að presturinn segði sannleikann? Eða heilsugæslustöð til að læknirinn gæti verið einlægur í því þegar hann er að lækna fólk, eða kennarinn í grunnskólanum? (Gripið fram í: Heyr.) Ég átta mig bara ekki á þessu.