Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 14:50:52 (4443)

2002-02-12 14:50:52# 127. lþ. 75.5 fundur 43. mál: #A samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Umrædd kísilverksmiðja í Norður-Noregi, sem ég þekki ekki til en hv. þm. nefndi, fékk fé, mikið fé væntanlega. Það fé var tekið af einhverjum sem hefði hugsanlega sett þessa peninga í nákvæmlega sama verkefni. Ég sé ekki af hverju það er betra að einhverjir opinberir starfsmenn útdeili þessu fé eftir einhverjum annarlegum sjónarmiðum, þ.e. ekki endilega arðsemi, og þá kalla ég annarleg sjónarmið t.d. byggðasjónarmið, að menn ætli sér að búa til störf á ákveðnum stað.

Varðandi það að opinberir starfsmenn séu óheiðarlegir --- það sagði ég aldrei. Ég sagði að þeir væru óábyrgir í gerðum sínum. Þeir taka ekki áhættuna með fjármagninu. Og gott dæmi er ákvörðun stjórnar Landssímans um að setja 200 milljónir í eitthvert áhættuverðbréf. Ég veit ekki til þess að þeir menn sem tóku ákvörðun um þetta hafi tapað krónu og sumir fóru jafnvel út með nokkuð góðan sjóð.

Það sem ég er að segja er því að ef menn eru settir í þá stöðu að taka ákvörðun um fjárfestingu í atvinnulífi eigi þeir sjálfir að bera ábyrgð á því sem þeir eru að gera. Þeir eiga að tapa á því ef fé tapast og þeir eiga að græða ef það gengur vel. Þá verður ákvörðunin nefnilega markviss og varkár.

Opinber starfsmaður sem ákveður að setja peninga í eitthvert fyrirtæki, hvort sem það er kræklingaeldi í Arnarfirði --- ef það væri svo arðbært sem um er talað fengi það örugglega fé í Reykjavík eins og þarf... (Gripið fram í: Þú fékkst ...) þannig að ef einhver tekur ákvörðun um að setja peninga í slíkt sem ekki ber arð ber hann enga ábyrgð á því sjálfur. En hann er ekki óheiðarlegur. Hann starfar eftir þeim reglum sem honum eru settar.