Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 14:57:10 (4446)

2002-02-12 14:57:10# 127. lþ. 75.5 fundur 43. mál: #A samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[14:57]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar tillögu og vil bæta við fáeinum orðum.

Mér finnst að við þurfum að horfast í augu við að við þurfum að koma til móts við atvinnulífið í landinu til að reyna að gefa því sömu tækifæri og atvinnulífið í nágrannalöndunum hefur. Við sem búum við mjög háa vexti, veikt gengi og sveiflukennt þurfum örugglega að horfast í augu við þetta. Þetta verður ekki gert nema með miklu átaki. Það er ekki æskilegt að þurfa að setja einhvers konar hjálparstarfsemi inn í bankakerfið. En á meðan íslenskt atvinnulíf býr við þá samkeppnisaðstöðu sem er núna verða menn að horfast í augu við það að ný fyrirtæki geta ekki risið upp, orðið til, með sama hætti á Íslandi og í löndunum í kringum okkur þar sem menn hafa aðgang að styrkjum og fjármögnun sem er miklu hagstæðari en hér. Mér finnst að íslensk stjórnvöld hafi alls ekki sinnt því að horfa á þessa hluti. Menn hafa verið býsna iðnir við að reyna að laða hingað einhvers konar fyrirtæki sem gætu séð sér hag í að koma hingað vegna lægri skatta og af öðrum þvílíkum ástæðum. En það eru ekki fyrir hendi sambærilegar aðstæður til að setja á stofn hér ný fyrirtæki eins og í löndunum í kringum okkur.

Maður sér það í títtnefndri netútgáfu byggðaáætlunar að stjórnvöld eru einmitt upptekin af því sem er hér. Þau hafa ekki þá sýn á samanburð atvinnuveganna hér við samkeppnisatvinnuvegi í kringum okkur. Í klásúlunni um starfsskilyrði atvinnuveganna í netútgáfunni sem ég nefndi áðan er eingöngu vísað til mismunar á aðstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni og í þéttbýlinu á Íslandi. Það virðist eingöngu vera í huga þeirra sem hafa samið skýrsluna að reyna að koma til móts við fyrirtæki á landsbyggðinni og sjá til þess að þau geti sprottið upp. Það er allt gott um það að segja en þetta er ekki sett í samhengi við samkeppni atvinnuveganna okkar við fyrirtækin í löndunum í kringum okkur. Það er þó nauðsynlegt. Og ég tel það vera, eins og ég sagði í upphafi, enn þá nauðsynlegra fyrir okkur að reyna að skapa sambærilegt umhverfi við það sem er í löndunum í kringum okkur vegna stöðu krónunnar og þeirra háu vaxta sem við búum við.

Ég ætla ekki að hafa um þetta langt mál. Frsm., hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, fór mjög vandlega yfir málið og hafði hér góða framsögu þannig að ég þarf ekki að bæta öðru við. Mér fannst hins vegar ástæða til að draga athyglina að því sem mér finnst vanta mjög alvarlega í yfirsýn íslenskra stjórnvalda. Ég hef ekki séð að menn væru að gera neinar aðrar ráðstafanir en í skattamálum fyrirtækja sem hugsanlega væri hægt að laða hingað með því að hér væru lægri skattar og að hægt væri að komast af með eitthvað lægri skattgreiðslur en í löndunum í kring. Hitt er ekki uppi að hér sé auðvelt að koma fyrirtækjum á laggirnar og við höfum --- það hefur borið á góma --- séð það að fyrirtæki sem menn höfðu þó sannarlega áhuga á að setja upp á Íslandi hafa farið annað og verið sett upp í Noregi og í fleiri löndum. Þá hafa menn verið búnir að fara mjög vandlega yfir það hvaða möguleikar væru á að koma á slíkum rekstri á Íslandi.

Það má auðvitað ekki vera þannig. Hér þurfum við að geta staðið í samkeppni um fyrirtæki og við þurfum að geta flutt hingað fyrirtæki annars staðar frá. Það mun ekki gerast öðruvísi en að hér séu fullkomlega sambærilegar aðstæður við löndin í kring.