Virkjun Hvalár í Ófeigsfirði

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 15:32:07 (4452)

2002-02-12 15:32:07# 127. lþ. 75.6 fundur 54. mál: #A virkjun Hvalár í Ófeigsfirði# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við að bæta öðru en því að mér þykir afar mikilvægt þegar virkjunarkostir eru skoðaðir í landinu að þeir séu skoðaðir heildstætt og í samhengi hverjir við aðra. Þess vegna hef ég talað fyrir því að rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir fái ákveðinn forgang umfram virkjunarframkvæmdir til þess að ekki sé verið að plokka í stórum stíl stóra virkjunarkosti kannski á miðhálendinu á jafnvel mjög umdeildu svæði, undan rammaáætluninni og hrinda þeim í framkvæmd áður en nokkur drög að þessari rammaáætlun eru farin að líta dagsins ljós.

Varðandi hins vegar þá tillögu sem hér er til umfjöllunar og hv. þm. hefur gert grein fyrir afar skýrt, lýsi ég stuðningi við þau sjónarmið sem að baki liggja í máli hv. þm. Auðvitað þarf að skoða alla möguleika til öflugs og jákvæðs atvinnulífs og mannlífs á Vestfjörðum eins og annars staðar á landinu. Ég tel að hér þurfi að gæta samræmis og skoða hlutina í stóru samhengi, þ.e. að virkjunarkostir séu skoðaðir með tilliti til heildarinnar.