Virkjun Hvalár í Ófeigsfirði

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 15:54:17 (4457)

2002-02-12 15:54:17# 127. lþ. 75.6 fundur 54. mál: #A virkjun Hvalár í Ófeigsfirði# þál., Flm. KVM
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Flm. (Karl V. Matthíasson):

Herra forseti. Ég vil þakka öllum þeim sem tekið hafa þátt í umræðunni um þessa þáltill. vegna undirbúningsvinnu fyrir virkjun Hvalár í Ófeigsfirði. Margt hefur komið fram og áhersla verið lögð á að við fáum að vita hverjir möguleikarnir eru fyrir virkjun Hvalár og hvort þessi virkjun, ásamt Mjólká, sé með vænlegri virkjunarkostum. En við vitum ekkert um það af því það hefur ekki verið skoðað. Það er á margan hátt í þeim anda sem við er að búast af núverandi stjórnvöldum varðandi það hvernig þau hafa sinnt þessu landsvæði, eins og fram kemur í byggðaáætlun sem á að fara að leggja fram en náttúrlega hlýtur ýmsu að verða breytt sem þar stendur til batnaðar fyrir byggðir og bú á þessu landsvæði sem Vestfirðr eru.

Herra forseti. Ég ítreka þakkir mínar og vona að þessi þáltill., sem ég legg til að verði vísað til iðnn., fái góða og skjóta afgreiðslu, þar sem gert er ráð fyrir því í tillögunni að rannsóknum verði lokið árið 2003. Það er næsta ár. Þess vegna þarf að drífa í þessu og hafa þessa kosti klára, einkum og sér í lagi með tilliti til þess sem sagt hefur verið, að það eru áhöld um ýmsa virkjunarkosti, hvort hreinlega megi fara í þá eða hvort það er hægt vegna ósamkomulags. Má vera að þetta séu bestu kostirnir, Vestfjarðavirkjanir?