Vistvænt eldsneyti á Íslandi

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 18:06:01 (4473)

2002-02-12 18:06:01# 127. lþ. 75.10 fundur 343. mál: #A vistvænt eldsneyti á Íslandi# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[18:06]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að lýsa því yfir úr þessum ræðustóli að ég er tilbúin til að vaða eld og brennistein með hv. þm. Hjálmari Árnasyni til að Ísland geti orðið vetnissamfélag innan 30 ára. En sú yfirlýsing mín er skilyrt. Hún er bundin því skilyrði að ríkisstjórnin hæstv. snúi frá villu síns vegar í stóriðjumálunum.

Ég spyr hv. þm.: Hvernig getur hann kinnroðalaust sem formaður iðnn. haldið því fram að hér eigi að fara að virkja, eins og kemur í ljós í því þingmáli sem ég nefndi áðan og var dreift á borðin okkar, 13 teravattstundir í stóriðju, og svo ætlar hann að búa til með hinni hendinni vetnissamfélag fyrir u.þ.b. 4,8 teravattstundir? Hvernig getur þingmaðurinn haldið þessu fram?

Ég segi líka, herra forseti: Ég ætla ekki að gera lítið úr pólitískri yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar um að Ísland verði mögulega vetnisvætt eftir 30 ár. En ég leyfi mér að gagnrýna þann tvískinnung sem mér finnst vera í stefnu ríkisstjórnarinnar.

Vetnisvæðingin gæti orðið hér á Íslandi það sem hæstv. ríkisstjórn ætlar stóriðjunni að vera núna. Hvers vegna snýr hv. þm. ekki bara bökum saman með þeim sem hafa haft uppi varnaðarorð gegn þeim gífurlegu virkjanaframkvæmdum sem eru á teikniborðinu varðandi stóriðjuna? Förum í vetnisvæðinguna og gerum hlutina skynsamlega, gerum rammaáætlun og ákveðum fyrir fram í hvað við ætlum að eyða orkulindunum okkar. Munum bara að við getum aldrei virkjað án náttúruspjalla.