Vistvænt eldsneyti á Íslandi

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 18:07:57 (4474)

2002-02-12 18:07:57# 127. lþ. 75.10 fundur 343. mál: #A vistvænt eldsneyti á Íslandi# þál., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Mikið vildi ég að við gætum gengið hönd í hönd, vaðið eld og brennistein, til að koma vetnisvæðingunni á. En hræddur er ég um að það handtak kunni að slitna ef hv. þm. er hörð á þeim skilyrðum sem hún setti.

Ekki er tími í stuttu andsvari til að fara í umræðu um stóriðju enda hún ekki á dagskránni. Ég segi þó það að að lokinni ítarlegri vinnu ágætra starfsmanna Íslenskrar nýorku og starfsmanna Orkustofnunar, sem horfa afskaplega hlutlægt á málið, er niðurstaðan einfaldlega sú að þau stóriðjuáform sem uppi eru núna og vetnisvæðingin fara vel saman.

Ég væri til í að fara í langar og miklar stóriðjuumræður um hin miklu glóbaláhrif sem snúa að því hver munurinn er á að reka stóriðju sem byggir á kolum og olíu, eins og í Mósambík, eða að nota stóriðju, álver hér sem notar vistvænu orkugjafana okkar. Þar greinir okkur á.

Hins vegar hafa umhverfissamtök, m.a. Green Globe, Pew Center on Global Climate Change og önnur slík virt alþjóðleg samtök, lofað og prísað það að Íslendingar skuli leggja sitt af mörkun til að draga úr alþjóðamengun, alheimsmengun, með því að bjóða sína vistvænu orkugjafa. En ég ítreka það að stóriðjustefnan og vetnisvæðingin fara saman.