Vistvænt eldsneyti á Íslandi

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 18:09:56 (4475)

2002-02-12 18:09:56# 127. lþ. 75.10 fundur 343. mál: #A vistvænt eldsneyti á Íslandi# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[18:09]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki mörgu hægt að koma að í stuttum andsvörum og okkur liggur mikið á hjarta í þessu máli. Varðandi tölurnar sem hv. þm. talaði um í ræðu sinni ætlaði ég að vera búin að hafa um nokkur orð en lét ákafann bera mig í einhverja aðra átt í fyrra andsvari. Hv. þm. Hjálmar Árnason nefndi tölur um orkuþörf vetnisframleiðslu sem koma fram í till. minni til þál. um sjálfbæra orkustefnu. Í þeirri tillögu er gert ráð fyrir u.þ.b. 20 teravattstundum í það að vetnisvæða Ísland, þ.e. að afskaffa með öllu jarðefnaeldsneytið. Í tillögu hv. þm. skilst mér hins vegar að gert sé ráð fyrir tæpum 5 teravattstundum í hið sama en þó er það ekki alveg ljóst því að hann nefnir eingöngu bíla og skip. Auðvitað notum við jarðefnaeldsneyti til annarra þarfa þannig að mér sýnist við ekki vera að tala um alveg sömu stærðirnar.

Þetta þarf auðvitað að skoða og ég vænti þess að það verði gert í hv. iðnn. Það verður þá reiknað út á sem bestan hátt en Orkustofnun kom að útreikningi þeirra talna sem eru í minni þáltill. þannig að það hefur þá kannski eitthvað breyst í forsendum stofnunarinnar. Eitt vil ég segja um tölur. Hv. þm. fer með fleipur þegar hann segir að við eigum óvirkjaðar 50 teravattstundir í vatnsafli og jarðvarma á Íslandi þegar búið er að draga frá einhverja virkjanakosti vegna náttúruspjalla eða vegna þess að vernda þurfi einhverjar náttúruperlur.

Sú tala er röng hjá hv. þm. og ég gæti haft hér langt mál um það hvers vegna hún er röng því að ég hef kynnt mér þessi mál afar vel og hef heyrt sjálfan orkumálastjóra, Þorkel Helgason, lýsa því yfir að í vatnsaflinu geti verið ásættanlegt að virkja 25 teravattstundir. Þá getur hv. þm. varla gert ráð fyrir því að við eigum 25 teravattstundir eftir í jarðvarmanum.

Hafi ég farið með rangar tölur í máli mínu hefur hv. þm. einnig gert það í sínu.