Vistvænt eldsneyti á Íslandi

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 18:12:08 (4476)

2002-02-12 18:12:08# 127. lþ. 75.10 fundur 343. mál: #A vistvænt eldsneyti á Íslandi# þál., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[18:12]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir heldur því fram og byggir á útreikningum sínum að um 20 teravattstundir þurfi til að vetnisvæða Íslendinga.

Í vinnu Íslenskrar nýorku sem byggir á samstarfi þeirra aðila sem ráða yfir vetnistækninni og eru sérfræðingar á því sviði og sérfræðinga Orkustofnunar fá menn út töluna 4,8, þ.e. 2,1 teravattstund á bílana og 2,7 teravattstundir á skipin. Samtals eru það 4,8 teravattstundir, og er langur vegur frá þeim og upp í þær 20 teravattstundir sem hv. þm. telur að þurfi til vetnisvæðingarinnar.

Ég held að forsendurnar séu einmitt þær sem ég nefndi áðan, að hv. þm. gefur sér að vetnið eigi að fara í sprengihreyfla. Vetnisvæðingin gengur ekki út á það. Hér verða ekki bílar með sprengihreyfla og nota vetni heldur verða bílar með efnarafala og vetni og þar af leiðandi er nýtingin tvisvar til þrisvar sinnum betri.

Ég held hins vegar að það sé engin tilviljun að talan 20 teravattstundir er fengin heldur sé hún reiknuð út með gleraugum vinstri grænna sem vilja fá slíka tölu upp einmitt í því skyni að sýna fram á að vetnisvæðing og stóriðjustefna fari ekki saman. Þar erum ég og hv. þm. einfaldlega ósammála en ég stend við töluna 4,8 teravattstundir sem byggir á aðferðum sérfræðinga, bæði í orkumálum og efnarafalatækni.