2002-02-12 18:32:36# 127. lþ. 75.11 fundur 488. mál: #A flutningur verkefna frá stjórnsýslustofnunum til sýslumannsembætta á landsbyggðinni# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[18:32]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Sú þáltill. sem hér er til umræðu er mjög góð eins og fram hefur komið. Hún er ein af fjölmörgum tillögum sem gefið hafa tilefni til að ræða um stöðu landsbyggðarinnar og þá þróun sem átt hefur sér stað, að æ fleiri flytjast á suðvesturhornið með þeim afleiðingum að erfiðara verður fyrir þá sem búa úti á landi að halda uppi þeim lífskjörum sem þar hafa verið.

Það er við hæfi, herra forseti, að vitna í þál. um stefnu í byggðamálum sem samþykkt var fyrir árin 1999--2001. Þar stendur m.a., með leyfi forseta:

,,Lögð verði áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Því markmiði verði meðal annars náð með því að leitast við að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins. Skilgreind verði eftir föngum þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja sem unnt er að sinna á landsbyggðinni. Hvert ráðuneyti fyrir sig leggi fram tillögur þar að lútandi sem meðal annars geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta.``

Þannig hljóða þessi orð úr þál. um stefnu í byggðamálum, sem átti að gilda fyrir síðustu þrjú ár.

Í ársskýrslu Byggðastofnunar er þetta allt tekið út. Þar er rætt um framkvæmdina og þar stendur m.a., með leyfi forseta:

,,Hafið er átak í því að flytja verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja út á landsbyggðina til fjarvinnslu.``

En þessi skýrsla var gerð fyrir árið 2000 og þá var ekki hafin sú martröð sem varð reyndin í sambandi við þau mál.

,,Einnig eru fyrirtæki hvött til að nýta sér þennan möguleika. Byggðastofnun, Iðntæknistofnun og forsætisráðuneytið gáfu sl. haust út skýrsluna ,,Nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni``, þar sem settar eru fram hugmyndir um hvaða verkefni er hægt að flytja á þennan hátt. Byggðastofnun hefur látið setja upp vefsíðu, sem er eins konar markaðstorg fyrir aðila sem vilja nýta sér þennan möguleika.``

Síðar í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

,,Viðbrögð við þessu starfi eru nánast engin. Hafið er samstarfsverkefni Iðntæknistofnunar, iðnaðarráðuneytisins og Byggðastofnunar um gerð viðskiptaáætlana fyrir nokkur fjarvinnsluverkefni.

Það er mat Byggðastofnunar að markmið áætlunarinnar á þessu sviði hafi engan veginn náðst og að töluvert skorti á að unnið hafi verið nægjanlega skipulega að því að skilgreina verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni.``

Í svörum ráðuneyta við fyrirspurn kemur fram að það eru einkum félmrn., umhvrn., iðnrn. og samgrn. sem hafa flutt störf út á landsbyggðina. Ég held að segja megi, herra forseti, án þess að halla á nokkurn, að samgrn. hafi staðið sig einna best í þessu. Það ber að þakka, skilning samgrh. hæstv. á þessum málum og fyrir það sem hann hefur lagt til málanna í þessu efni. En því miður verður það sama ekki sagt um sum önnur ráðuneyti, t.d. dóms- og kirkjumrn. sem helst mundi koma að því máli sem hér um ræðir, að sýslumenn fái aukin verkefni. Því legg ég til að þegar fjallað verður um næstu byggðaáætlun, 2002--2005, verði þessi þáltill. höfð með í þeirri umræðu.

Um opinbera þjónustu segir í nýrri byggðaáætlun, sem ekki hefur verið lögð fyrir þing en vonir standa til að gert verði innan skamms, með leyfi forseta:

,,Í mörgum nágrannalöndum hefur verið tekið tillit til byggðasjónarmiða við uppbyggingu opinberrar þjónustu. Þannig hefur stofnunum sem þjóna öllu landinu verið valinn staður annars staðar en í höfuðborginni. Þessari aðferð þarf að beita í meiri mæli en gert hefur verið hér á landi. Í því sambandi er mikilvægt að horfa fyrst og fremst á helstu byggðakjarna á landsbyggðinni. Þetta má gera t.d. með eflingu þeirra stofnana sem fyrir eru og í tengslum við endurskipulagningu stofnana, við stofnun nýrra stofnana, með flutningi verkefna frá opinberum aðilum til fyrirtækja og hugsanlega með flutningi stofnana. Lögð er áhersla á að störfum og verkefnum í opinberri þjónustu verði fjölgað utan höfuðborgarsvæðisins með markvissu átaki næstu árin og að við hagræðingaraðgerðir í opinberum rekstri, sem m.a. leiða til fækkunar starfa í útibúum og svæðisskrifstofum, verði þess gætt að byggja þar í staðinn upp starfsemi sem þjónar öllu landinu.``

Þannig hljóðar það, herra forseti. Þetta er nú ósköp keimlíkt því sem var í síðustu þingsályktun um stefnu í byggðamálum. Það vakna náttúrlega upp spurningar um hvort sú stefna sem áður var sé bara prentuð upp að miklu leyti og svo sett inn í þessa nýju.

En orðunum hafa ekki fylgt efndir. Því viljum við, þingmenn Samfylkingarinnar, leggja fram þáltill. um byggðamál og hvetjum til að þær fái góða meðferð í þinginu og jákvæða, sérstaklega þessi þáltill. sem einmitt er til þess gerð að styrkja sýslumannsembættin. Í henni er lagt til að þeim verði fengin aukin verkefni, sem örugglega er hægt, til þess að þau eflist og lífið í kringum sýslumannsembættin verði fjörugra en verið hefur síðari ár.