Varnarsamningurinn við Bandaríkin

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 13:38:27 (4481)

2002-02-13 13:38:27# 127. lþ. 77.1 fundur 469. mál: #A varnarsamningurinn við Bandaríkin# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[13:38]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Í desembermánuði árið 2000 var sagt frá því í fréttum að háttsettir embættismenn íslenskra og bandarískra stjórnvalda hefðu ákveðið að hefja viðræður um bókunina við varnarsamning þjóðanna tveggja í febrúar 2001 eða fyrir réttu ári. Sem kunnugt er rann bókunin sem staðfest var árið 1996 út í apríl 2001 eða fyrir um 10 mánuðum.

Að sjálfsögðu geri ég mér ljóst, herra forseti, að stjórnarskipti urðu í Bandaríkjunum fyrir rúmu ári og að hryðjuverkin 11. september sl. hafa haft mikil áhrif á gangverk hins bandaríska stjórnkerfis. Ég ætla þó, herra forseti, að leyfa mér að inna hæstv. utanrrh. eftir því hvað líði samningaviðræðum við bandarísk stjórnvöld vegna bókunarinnar við varnarsamninginn.

Því hefur löngum verið haldið á lofti að samningar um bókunina væru auðleyst mál. Það kom m.a. fram í máli fyrrv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Madeleine Albright, þegar hún var stödd hér á landi haustið 2000. Í sama streng tók Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sl. sumar.

Einnig þykir mér eðlilegt, herra forseti, að fram komi hver samningsmarkmið íslenskra stjórnvalda eru í þessu máli, hvort þau samrýmist samningsmarkmiðum bandarískra stjórnvalda eða hvort mikið beri í milli, t.d. er varðar kostnaðarskiptingu, viðbúnað Bandaríkjahers hér á landi og framkvæmd tiltekinna þátta í samstarfinu.