Stefnumótun í öryggis- og varnarmálum

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 13:45:08 (4485)

2002-02-13 13:45:08# 127. lþ. 77.2 fundur 470. mál: #A stefnumótun í öryggis- og varnarmálum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Hálft ár er nú liðið frá hryðjuverkunum í New York og Washingtonborg og umræðan hér á Alþingi hefur að sjálfsögðu litast af þessum atburðum, bæði beint og óbeint. Sjálfur sagði hæstv. utanrrh. í umræðum um utanríkismál 29. nóvember sl. að áhrif hryðjuverkanna hefðu þegar verið gríðarleg og mundu verða langvarandi. Ég hef reyndar ekki tölu á þeim skiptum, herra forseti, sem hv. þingmenn hafa stigið á stokk og haft uppi yfirlýsingar um geigvænleg áhrif voðaatburðanna í Bandaríkjunum. Hins vegar hefur farið minna fyrir efnislegri umræðu í þessum sal um það hver þau áhrif séu til lengri og skemmri tíma litið. Kannski er ekki við öðru að búast því að hér er um margslungið og erfitt verkefni að ræða en það skiptir okkur öll miklu máli.

Samfylkingin hefur frá upphafi haft það á stefnuskrá sinni að endurskoðun öryggis- og varnarmála landsins sé sameiginlegt verkefni ríkisstjórnar og þings, með öðrum orðum sameiginlegt verkefni allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á hinu háa Alþingi. Með þetta í huga hef ég beint þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir þverpólitískri vinnu um langtímastefnumótun í öryggis- og varnarmálum landsins. Að mörgu er að huga, herra forseti. Öryggi þjóðar snýst ekki einvörðungu um varnir í hefðbundnum skilningi heldur einnig um stöðugleika í efnahagslífi og vernd umhverfisins. Í þessu efni er Ísland engin undantekning og má færa gild rök fyrir því að stærstu öryggismál okkar varði umhverfið, t.d. mengun sjávar. Einnig er ljóst að aukinn vilji er fyrir því innan Evrópusambandsins að lúta ekki í einu og öllu leiðsögn Bandaríkjanna um þessi efni.

Skemmst er að minnast ummæla Chris Pattens, framkvæmdastjóra alþjóðamála hjá ESB, sem gagnrýndi harðlega ræðu Bandaríkjaforseta þar sem Írak, Íran og Norður-Kórea voru útnefnd möndulveldi hins illa. Þá má gera því skóna að varnarstoð Evrópusambandsins og ráðgerð stækkun NATO muni hafa mikil áhrif á öryggismálaumræðuna hér í álfunni og víðar.