Stefnumótun í öryggis- og varnarmálum

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 13:47:29 (4486)

2002-02-13 13:47:29# 127. lþ. 77.2 fundur 470. mál: #A stefnumótun í öryggis- og varnarmálum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Stefna Íslands í öryggis- og varnarmálum byggir í höfuðatriðum á aðildinni að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningnum við Bandaríkin og aukinni samvinnu við Evrópuríkin á sviði varnar- og öryggismála. Þetta er vel þekkt staðreynd sem ekki þarf að orðlengja um frekar að öðru leyti en því að undirstrika að þetta fyrirkomulag hefur dugað Íslendingum vel í meira en hálfa öld og við sjáum ekki fram á neinar grundvallarbreytingar í þeim efnum.

Við tökum einnig fullan þátt í öðrum alþjóðastofnunum sem beina athyglinni að alþjóðlegum öryggismálum. Nefni ég þar einkum Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Sameinuðu þjóðirnar.

Breyttar aðstæður í öryggis- og varnarmálum á undanförnum áratug hafa kallað á aðlögun á starfsemi þeirra stofnana sem við eigum aðild að. Við höfum tekið þátt í þeirri vinnu eins og aðrir og átt viðræður við Bandaríkin um aðlögun varnarsamstarfsins að nýjum aðstæðum í tvígang á síðasta áratug. Við höfum einnig fylgst grannt með þróun sameiginlegrar öryggis- og varnarstefnu Evrópusambandsins. Íslensk stjórnvöld eru hlynnt þeirri þróun en við leggjum höfuðáherslu á að ekki dragi úr gildi Atlantshafstengslanna og að Atlantshafsbandalagið leiki eftir sem áður aðalhlutverkið í öryggismálum álfunnar. Það hefur sýnt það og sannað að þrátt fyrir gífurlegar breytingar hefur engin önnur stofnun getað tekið að sér að leika það hlutverk á trúverðugan hátt.

Ég hef talið nauðsynlegt að vega og meta aðstæður í íslenskum öryggis- og varnarmálum reglulega og huga að því með hvaða hætti bregðast skuli við á hverjum tíma. Starfshópur sem ég setti á stofn skilaði af sér greinargerðinni ,,Öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót`` í febrúarmánuði 1999. Þeim tillögum sem þar voru settar fram hefur verið fylgt eftir, m.a. með stofnun starfshóps sem setti fram tillögur um þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu í október árið 2000. Íslenska friðargæslan var stofnuð í kjölfarið og hefur starf hennar gengið með ágætum.

Ég hef ekki orðið var við annað en að víðtæk samstaða sé í íslenskum stjórnmálum um þá öryggis- og varnarmálastefnu sem við höfum mótað og þá aðlögun sem fram hefur farið til að koma til móts við breyttar aðstæður. Vegna þessa hef ég ekki séð ástæðu til að standa fyrir þverpólitísku samstarfi um langtímastefnumótun í öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar.