Stefnumótun í öryggis- og varnarmálum

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 13:51:00 (4487)

2002-02-13 13:51:00# 127. lþ. 77.2 fundur 470. mál: #A stefnumótun í öryggis- og varnarmálum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég velti fyrir mér þeirri fyrirspurn sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir ber fram til hæstv. utanrrh. Mér finnst einhvern veginn eins og hv. þm. sé að gefa sér að ekki sé til nein langtímastefnumörkun í varnar- og öryggismálum þjóðarinnar. Ég veit ekki annað en að sá samningur sem við höfum gert við NATO og Bandaríkin um tvíhliða varnir og öryggismál þessa lands hafi virkað í yfir 50 ár. Það að gera ráð fyrir því að núna fari fram þverpólitísk vinna um langtímastefnumótun í öryggis- og varnarmálum --- það hlýtur eitthvað annað að vera á bak við þetta, herra forseti, heldur en einhver svona bollalegging. 50 ára reynsla af þeim samningi sem við höfum er það góð að við höfðum enga ástæðu til að ætla annað en sá samningur geti dugað 50 ár í viðbót. Er hv. þm. að gera ráð fyrir því að við þurfum ekkert varnarsamband við Bandaríkin af því að flokkur hv. þm. vill ganga í Evrópusambandið?