Starfsemi öldungadeilda framhaldsskóla

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:25:18 (4503)

2002-02-13 14:25:18# 127. lþ. 77.5 fundur 365. mál: #A starfsemi öldungadeilda framhaldsskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:25]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er:

,,Gilda reglur um greiðslur á hvern nemanda framhaldsskóla um rekstur öldungadeilda, þ.e. að aðeins er greitt fyrir þá nemendur sem þreyta próf?``

Svarið er nei, svo er ekki. Öldungadeildir hafa ekki verið gerðar upp með sama hætti og dagskólinn en áfangalistar þeirra hafa verið hafðir til hliðsjónar við ákvörðun framlaga og áætlun nemendatalna. Gert er ráð fyrir að þetta breytist með endurskoðun reiknilíkans fyrir framhaldsskólann. Skrár öldungadeildarnema verða þá meðhöndlaðar eins og fyrir dagskólann að öðru leyti en því að þeir nemar greiða þriðjung kennslukostnaðar samkvæmt lögum eins og fram hefur komið og skrár þurfa þannig að bera með sér hverjir stunda slíkt nám.

Í öðru lagi er spurt:

,,Hversu hátt hlutfall innritaðra nemenda í öldungadeild fer í próf og hversu hátt hlutfall allra nemenda í framhaldsskólum?``

Ég hef hér tölur frá skólaárinu 2000. Á vorönn 2000 var brottfallið úr dagskóla 11% en úr öldungadeildum 23% og á haustönn 2000 var brottfall úr dagskóla 14% en úr öldungadeildum 32%. Þess ber að geta að þessi haustönn, 2000, er nokkuð sérstök því til verkfalls framhaldsskólakennara kom á þeirri önn eins og menn muna.

Í þriðja lagi er spurt:

,,Hverjum er ætlað að bera kostnaðinn af þeim nemendum sem þreyta ekki próf? Og hver er kostnaður vegna þeirra á síðasta ári og áætlaður kostnaður á þessu ári, sundurgreint eftir skólum?``

Fjárveitingar til framhaldsskóla miðast við að nýting framboðinnar kennslu og prófþátttaka sé a.m.k. 77,46% þannig að inni í reglunum er töluvert svigrúm eins og þarna kemur fram. Þá er miðað við margra ára reynslutölur og njóta skólar hagnaðar af betri nýtingu en bera halla ella. Skólum er í sjálfsvald sett hvaða nám þeir bjóða og hvaða áfangar eru settir af stað hverju sinni. Gert er ráð fyrir að skólarnir skipi málum í ljósi reynslu fyrri ára og komist þannig hjá því að halda úti í kennslu sem leiðir til hallarekstrar. Kostnaður af þeim nemendum sem ekki fara í próf rúmast þannig innan þeirra fjárheimilda sem skólar hafa ef skipulagning þeirra er með felldu. Engin leið er til þess að greina kostnað vegna nemenda sem ekki fara í próf frá öðrum kostnaði eða framlögum til rekstrar kvöldskóla. Þaðan af síður áætlar ráðuneytið fyrir nemendur sem fara ekki í próf öðruvísi en með því að gera tiltekna áðurnefnda nýtingarkröfu. Af þessu leiðir að ekki er unnt að greina kostnað af nemendum sem ekki fara í próf eftir skólum.

Í fjórða lagi er spurt:

,,Er það ætlun ráðherra að beita sér fyrir því að herða reglur um innritun nemenda í öldungadeild í samræmi við áætlaðar fjárveitingar til þessarar kennslu á árinu 2002?``

Svarið er eftirfarandi: Ráðherra setur ekki reglur um innritun nemenda í öldungadeildir. Við undirbúning fjárlaga 2002 var unnið samkvæmt því að nauðsynlegt aðhald og skerðing samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar bitnaði síður á dagskóla en annarri starfsemi skóla. Í samræmi við það var gert ráð fyrir minni aukningu fjárframlaga til kennslu í öldungadeildum en dagskólans, eða úr 108 millj. kr. árið 2001 í 137 millj. kr. 2002. Þá hefur verið tekið tillit til sértekna en þessar upphæðir tóku síðan venjulegri verðlagsuppfærslu í meðförum fjárlagaskrifstofu og í lokaafgreiðslu þingsins.

Hér hefur þessum spurningum verið svarað um þennan þátt í skólastarfinu. Ég er ekki endilega þeirrar skoðunar að samdráttur í öldungadeildum, fækkun nemenda þar, eigi rætur að rekja til þess að fjárhagsumhverfi skólanna hafi breyst. Ég held miklu frekar að fækkun nemenda í öldungadeildum eigi rætur að rekja til þess að námsframboð af öðrum toga hefur stóraukist og þá sérstaklega fjarnámsframboð. Við sjáum þær tölur sem hafa verið til umræðu á Alþingi á undanförnum mánuðum þegar við höfum rætt um fjarnámið. Sú gífurlega aukning fjarnámsnema sem fram hefur komið hlýtur að sjálfsögðu að hafa áhrif á það hvort fólk innriti sig í öldungadeildir eða ekki. Það er sú breyting sem veldur því að svigrúmið, þ.e. að vegna þess að nemendunum fækkar koma minni fjármunir en áður ef miðað er við fjölda nemenda. Þetta verða menn að hafa í huga og draga ályktanir af því frekar en að reikna það út að breyttar fjárhagsforsendur eða breytt samskipti ráðuneytisins við skólana ráði því hvort nemendur eru margir eða fáir í öldungadeildum.