Starfsemi öldungadeilda framhaldsskóla

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:31:15 (4505)

2002-02-13 14:31:15# 127. lþ. 77.5 fundur 365. mál: #A starfsemi öldungadeilda framhaldsskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:31]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að öldungadeildarnám er kannski með merkustu og best heppnuðu nýjungum sem komið hafa fram á liðnum áratugum í íslensku skólakerfi. Fjölmargir, ótrúlega margir þeirra sem núna eru helstu menntamenn þjóðarinnar, hafa komist til náms í gegnum öldungadeildirnar. Öldungadeildirnar gefa nefnilega fólki, sem hefur af einhverjum ástæðum á námstíma sínum orðið að hverfa frá námi, nýtt tækifæri til náms. Ég held að nú sé ekki síður en áður ástæða til að bjóða upp á öldungadeildarnám, jafnvel þó að aðstæður hafi breyst og boðið sé upp á aukið fjarnám sem er auðvitað af því góða. Það eru ekki allir sem treysta sér eða eru til þess fallnir að stunda fjarnám þó að hörðustu námsmenn geri það með miklum ágætum. Ég held að við þurfum líka að bjóða upp á öldungadeildirnar og við eigum ekki að hefta aðgang að þeim með of háum skólagjöldum.