Starfsemi öldungadeilda framhaldsskóla

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:32:31 (4506)

2002-02-13 14:32:31# 127. lþ. 77.5 fundur 365. mál: #A starfsemi öldungadeilda framhaldsskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Vissulega getur hluti af ástæðunni fyrir því að dregið hefur úr aðsókninni verið að hægt er að bjóða upp á þetta nám í einhverjum skólum með fjarnámi, og fjölbreyttara námsframboð en áður er til staðar.

Engu að síður er það staðreynd að t.d. við Menntaskólann við Hamrahlíð er gífurleg aðsókn að öldungadeildinni. Hún heldur áfram að vera til staðar, ekki bara aðsókn fólks úr höfuðborginni heldur þjónar Menntaskólinn við Hamrahlíð líka fólki af landsbyggðinni. Ég tel að öldungadeildirnar séu svo mikilvægur þáttur í menntakerfi okkar að það verði með öllum tiltækum ráðum að stuðla að því að þær geti starfað áfram.

Ég ætlaði, virðulegi forseti, áðan að fara yfir þessar till. til þál., sem ég geri mér eindrægnar vonir um að Alþingi samþykki, tillögur sem fluttar eru af varaþm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Þetta er svolítið óþjált nafn eins og flokkurinn en 1. flm. er varaþm. þessa ágæta flokks, hv. þm. Drífa Snædal, og ég tel að Alþingi þurfi endilega að samþykkja innihald þessarar tillögu. Koma þarf á athugun og endurskoðun á námi í öldungadeildum til að við getum tryggt að öldungadeildirnar starfi áfram, ekki bara í Reykjavík heldur einnig úti á landi.

Æðimargir þurfa líka að sækja fyrst nám í öldungadeildum áður en þeir verða í raun færir um að nýta sér þá kosti sem fjarkennslan býður upp á.