Svæðisútvarp Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:39:20 (4509)

2002-02-13 14:39:20# 127. lþ. 77.6 fundur 412. mál: #A svæðisútvarp Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þær spurningar sem hér eru lagðar fram eru allar þess eðlis að þær falla undir verksvið útvarpsstjóra og stjórnenda Ríkisútvarpsins. Þess vegna byggi ég svar mitt á þeim svörum sem ég fékk frá útvarpsstjóra í framhaldi af fyrirspurn hv. þm.

Í fyrsta lagi er spurt:

,,Hver eru áform menntamálaráðherra og stjórnenda Ríkisútvarpsins um svæðisútvarp í framhaldi af flutningi Rásar 2 til Akureyrar?``

Ég vil árétta að hér er um svör útvarpsstjóra að ræða enda stjórnar hann öllu því sem þessar spurningar lúta að. Svarið er eftirfarandi:

Í framhaldi af álitsgerð vinnuhóps útvarpsstjóra og ályktun meiri hluta útvarpsráðs er fyrirhuguð sú skipulagsbreyting hjá Ríkisútvarpinu að dagskrárstjóri Rásar 2 hafi aðsetur á Akureyri. Þar verður jafnframt miðstöð landshlutaútvarps á vegum Ríkisútvarpsins. Breytingin getur að fullu komið til framkvæmda með næstu vetrardagskrá. Dagskrárstjóri mun m.a. hafa það hlutverk með höndum að tryggja aukna hlutdeild svæðisstöðvanna á Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum í dagskrá Rásar 2, t.d. með virku framlagi þeirra til dægurmálaþátta í beinum útsendingum í morgun- og síðdegisútvarpi.

Útvarp Suðurland á Selfossi hefur annast svæðisútvarpssendingar á dreifikerfi Rásar 2 um Suðurland samkvæmt þjónustusamningi við Ríkisútvarpið frá 1999. Gert er ráð fyrir áframhaldandi samstarfi við Útvarp Suðurland og verður það nánar lagað að hinu nýja skipulagi Rásar 2. Önnur dagskrárgerð verður efld í landshlutastöðvunum eftir því sem fjárhagur Ríkisútvarpsins leyfir.

Önnur spurningin er:

,,Verður byggt upp svæðisútvarp á vegum Ríkisútvarpsins í þeim landshlutum þar sem það er ekki, svo sem á Suðurlandi og Vesturlandi?``

Svarið er: Samvinna við Útvarp Suðurland hefur tekist vel og hefur Ríkisútvarpið því ekki talið það forgangsverkefni að koma upp aðstöðu til svæðisútsendinga á eigin vegum á Suðurlandi. Á Vesturlandi hefur verið efnt til samstarfs við fjölmiðlafyrirtækið Tíðindamenn ehf. sem veitir útvarpi og sjónvarpi Ríkisútvarpsins fréttaþjónustu. Mögulegt er að þróa þá samvinnu áfram og fjölga viðfangsefnunum ef fjárhagslegar forsendur eru fyrir hendi. Því er ekki talin ástæða til að Ríkisútvarpið hefji starfsemi á eigin vegum á Vesturlandi.

Loks er spurt:

,,Verður tillit tekið til breytinga á kjördæmaskipan við fyrirhugaða styrkingu svæðisútvarps?``

Hér segir í svari útvarpsstjóra: Þetta atriði er að sjálfsögðu háð afstöðu Alþingis og bíður setningar nýrra og endurskoðaðra laga um Ríkisútvarpið. Útvarpsstjóri telur að umrædd skírskotun til kjördæmaskiptingar sé ekki alls kostar rétt eða hún eigi ekki alls kostar við. Af margvíslegum ástæðum verður ekki í fljótu bragði séð að svæðisútvarpsstarfsemi leggist af á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum þrátt fyrir breytingar á kjördæmaskipan. Hvort gert verður enn betur í öðrum landshlutum er háð stefnumörkun stjórnvalda og þeim fjárhagslegu skilyrðum sem Ríkisútvarpinu verða sköpuð. --- Þetta var svar útvarpsstjóra.