Svæðisútvarp Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:44:58 (4512)

2002-02-13 14:44:58# 127. lþ. 77.6 fundur 412. mál: #A svæðisútvarp Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:44]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni fyrir að bera þessar spurningar fram og vekja athygli á því að það er langt frá því að Sunnlendingar njóti sömu þjónustu og þeir sem búa við svæðisútvarp sem rekið er frá Ríkisútvarpinu þó að komið hafi fram hjá hæstv. menntmrh. að samstarf Ríkisútvarps og Útvarps Suðurlands hafi verið gott. Það væri mjög fróðlegt að skoða hlutfall þeirra þátta sem fluttir eru í Ríkisútvarpinu frá svæðisstöðvum þess og frá útvarpinu á Suðurlandi í gegn um þetta samstarf, sem út af fyrir sig er ágætt og ég er ekkert að lasta það. Það er betra en ekkert.

Það var hins vegar hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem átti stærstan þátt í því að koma þessu samstarfi á á sínum tíma. Ég vil endilega að það komi hér fram því það var meðal þess síðasta sem hún gerði á meðan hún vann hjá Ríkisútvarpinu.