Svæðisútvarp Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:46:11 (4513)

2002-02-13 14:46:11# 127. lþ. 77.6 fundur 412. mál: #A svæðisútvarp Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:46]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það kom ýmsum á óvart þegar áform komu fram um að flytja Rás 2 norður á Akureyri. Ljóst er að mikið er á sig lagt til að styrkja allt sem heyrir undir starfsemi á Akureyri. Það er augljóst samkvæmt þeirri byggðaáætlun sem nú er verið að kynna að það er ekki reynt að gera jafnmikið fyrir önnur svæði landsins.

Ég held að meðan við rekum Ríkisútvarpið sem ríkisstofnun sé alls ekki fráleitt að dreifa starfseminni víðar um landið og jafnvel nauðsynlegt að styrkja sum svæði hvað þetta varðar.

Ég get t.d. alveg séð fyrir mér að Rás 1 geti flutt út á land eins og Rás 2. Hvers vegna skyldi ekki Rás 1 fara á Selfoss og vera með Útvarpi Suðurlands alveg eins og að vera í Reykjavík? Mér fyndist jafneðlilegt að athuga það eins og hvað annað.