Svæðisútvarp Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:48:45 (4515)

2002-02-13 14:48:45# 127. lþ. 77.6 fundur 412. mál: #A svæðisútvarp Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:48]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli þingheims á því að svæðisstöðvar Ríkisútvarpsins hafa þurft að þola niðurskurð í útsendingartíma og dagskrárgerðarfé undanfarin missiri. Þegar niðurskurðurinn var orðinn slíkur að svæðisstöðvarnar voru farnar að kveinka sér mjög kom hæstv. menntmrh. með þessa snilldarhugmynd, að taka bara Rás 2 og breyta henni í miðstöð svæðisútvarpsstöðvanna, flytja hana norður á Akureyri og efla til muna svæðisstöðvarnar. Svona hefur hæstv. menntmrh. það, hann sker niður með annarri höndinni um leið og hann byggir upp með hinni.

Ég lýsti því yfir, herra forseti, að vinnubrögð af þessu tagi eru ekki til fyrirmyndar. Þegar hæstv. ráðherra gefur í svari sínu, sem hann þó eignar útvarpsstjóra, fyrirheit um að efla skuli svæðisstöðvarnar sem aldrei fyrr, eftir því sem fjármunir leyfa, vil ég spyrja: Hvaðan eiga fjármunir að koma í eflingu svæðisstöðvanna? Ég vil fá að vita það. Þingheimur á rétt á því að fá að heyra svör við því.