Tækniháskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:02:34 (4521)

2002-02-13 15:02:34# 127. lþ. 77.7 fundur 452. mál: #A Tækniháskóli Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að frv. um tækninám á háskólastigi sé loksins að líta dagsins ljós og sé þá að öllum líkindum væntanlegt inn í þingsali innan skamms.

Ég fagna því líka að hæstv. ráðherra skuli lýsa því yfir að honum sé annt um þetta nám og þennan umrædda skóla. Mér hefur hins vegar ekki fundist gæta þeirrar væntumþykju í þeim fréttum sem við höfum verið að fá af málefnum skólans upp á síðkastið um það að skólinn sé afskiptur í umræðum um málefni hans og þar fram eftir götum. Ég fer ekki nánar út í þá sálma hér en ég vil aðeins segja að Tækniskólinn á sér mjög öfluga framtíðardrauma sem lýst hefur verið í skýrslu um stöðumat skólans og framtíðarsýn. Það er alveg ljóst að lífsnauðsynlegt er að Tækniháskóli Íslands verði stofnaður fljótlega og hann verði virtur fagháskóli á sviði tækni og rekstrar og ég brýni hæstv. menntmrh. til þess að ganga þar í fararbroddi þannig að þeirri óvissu sem um málefni skólans hefur ríkt verði eytt hið snarasta.