Innheimta skuldar við LÍN

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:09:34 (4525)

2002-02-13 15:09:34# 127. lþ. 77.8 fundur 463. mál: #A innheimta skuldar við LÍN# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Sá sem mál þetta varðar er ungur maður sem hefur fengið staðfesta greiningu á MS-sjúkdómi. Hann kvartaði yfir úrskurði málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna þar sem synjun stjórnar Lánasjóðsins á beiðni hans um undanþágu frá endurgreiðslu námslána var staðfest á grundvelli þeirrar hlutlægu og fortakslausu vinnureglu stjórnarinnar að ekki væri veitt undanþága frá endurgreiðslu námslána ef líklegt yrði talið að lánþega mundi reiknast tekjutengd afborgun á næsta ári eftir að sú breyting átti sér stað sem var ástæða beiðni hans. Þessi vinnuregla er viðhöfð þó að í lögum standi að LÍN hafi heimild til að veita undanþágu frá endurgreiðslu, ýmist til lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum eftir atvikum.

Þetta mál var lagt fyrir umboðsmann Alþingis sem gerði alvarlegar athugasemdir um málsmeðferð stjórnar LÍN og síðar málskotsnefndarinnar og taldi þá ekki hafa kannað með fullnægjandi hætti fjárhagslegar aðstæður mannsins á því tímabili sem beiðni hans var til meðferðar, t.d. ekki leitað eftir fullnægjandi gögnum um hvort aðstæður hans og einkum það að hann hafði í kjölfarið greinst með alvarlegan sjúkdóm hefðu leitt til alvarlegrar skerðingar á ráðstöfunarfé eða möguleikum til að afla tekna eða hvort aðstæður hans hefðu valdið honum eða fjölskyldu hans verulegum fjárhagsörðugleikum.

Umboðsmaður telur að þótt stjórnin setji sér ákveðnar verklagsreglur sé hún eftir sem áður skuldbundin til að framkvæma einstaklingsbundið mat á beiðnum um undanþágu. Því mælist umboðsmaður Alþingis til að málskotsnefnd sjóðsins taki málið til skoðunar á ný. Áður en sú skoðun hafði farið fram gaf stjórn lánasjóðsins viðkomandi manni og fjölskyldu hans úrslitafrest til að greiða viðkomandi skuld. Framkvæmdastjóri LÍN gaf þá yfirlýsingu um málið í Fréttablaðinu að hann þekkti þess engin dæmi að mál hefði verið tekið úr innheimtu þrátt fyrir meðferð til úrskurðar.

Því spyr ég hæstv. menntmrh.: Telur ráðherra samræmast góðum stjórnsýsluháttum að innheimta skuld MS-sjúklings við Lánasjóð íslenskra námsmanna hjá sjúklingnum og aðstandendum hans sem hafa gengið í ábyrgðir, þegar mál hans hefur að nýju verið sent málskotsnefnd LÍN í kjölfar úrskurðar umboðsmanns Alþingis?