Innheimta skuldar við LÍN

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:12:25 (4526)

2002-02-13 15:12:25# 127. lþ. 77.8 fundur 463. mál: #A innheimta skuldar við LÍN# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Mál þetta er einstakt, bæði að efni, eins og fram mun koma í svari mínu, og einnig að því leyti að mál einstaklings skuli vera tekið upp á Alþingi með þessum hætti. Loks er fyrirspurnin líka þess eðlis að hún gefur í raun og veru tilefni til að velta fyrir sér með hvaða hætti orðalag á slíkum fyrirspurnum eigi að vera svo að vel sé að verki staðið og hvort það sé í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að leggja fram spurningar af þessum toga.

Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna í tilefni af þessari fyrirspurn er mál það sem hér um ræðir án fordæmis hjá sjóðnum. Þótt deila megi um það hvort fjalla eigi um einstök mál sem snerta tiltekna einstaklinga, t.d. hér í fyrirspurnatíma á Alþingi, og þannig með opinberum hætti gefur fyrirspurnin tilefni til þess, auk þess sem um þetta mál hefur verið fjallað á síðum dagblaða að undanförnu.

Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna er um að ræða vanskil allt frá árinu 1997 sem enn hafa ekki verið innheimt. Þegar lánþeginn sótti um undanþágu frá greiðslum á árinu 1999 voru vanskil hans komin til innheimtu hjá lögmönnum. Þótt umsókn hans hafi borist seint var hún tekin til efnislegrar meðferðar en synjað. Stjórn LÍN hefur haldið því fram að þegar vanskilin hófust hafi engar þær aðstæður verið fyrir hendi hjá lánþeganum sem gáfu tilefni til undanþágu frá afborgun af námsláni hans. Stjórnin hefur jafnframt hafnað því að aðstæður lánþegans, eftir að vanskil voru komin í lögmannsinnheimtu, geti gefið tilefni til undanþágu. Stjórnin hafi á hinn bóginn, árið 1999, vegna aðstæðna lánþegans gefið honum kost á að skuldbreyta vanskilum á hagstæðum kjörum sem hann hafi ekki þegið.

Synjun stjórnar LÍN var kærð til málskotsnefndar sem er sjálfstætt stjórnvald og óháð stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Í nefndinni eiga sæti þrír lögfræðingar, þar af einn héraðsdómari. Úrskurðir málskotsnefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslustigi og þeim verður því ekki skotið til menntmrn. Nefndin staðfesti afgreiðslu stjórnar LÍN í janúar árið 2000. Lánþeginn leitaði til umboðsmanns Alþingis sem lét álit sitt í ljósi í maí 2001. Tilmæli hans voru að málskotsnefndin tæki málið fyrir að nýju. Það gerði málskotsnefndin og hefur málið verið til meðferðar hjá henni síðan.

Mál þetta er því í þeim lögformlega farvegi sem því ber samkvæmt þeim lögum sem samþykkt hafa verið hér á Alþingi og það er til meðferðar hjá þar til bærum stjórnvöldum, lögum samkvæmt. Með hliðsjón af því tel ég mér ekki skylt að svara því hvort hér sé um góða stjórnsýsluhætti að ræða eða ekki. Hér er verið að vinna að máli í samræmi við lög af sjálfstæðum stjórnvöldum sem ber að taka afstöðu til málsins. Ég held að hver og einn geti sett sig í þá stöðu að komast að niðurstöðu um það hvort eitthvað í þessu sé ámælisvert frá stjórnsýslulegum sjónarhóli.