Innheimta skuldar við LÍN

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:15:51 (4527)

2002-02-13 15:15:51# 127. lþ. 77.8 fundur 463. mál: #A innheimta skuldar við LÍN# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GunnB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Rétt til að skýra fyrir hv. fyrirspyrjanda Sigríði Jóhannesdóttur hvernig þetta gengur til þá er þetta þannig að til eru tvær undirnefndir stjórnar lánasjóðsins, þ.e. endurgreiðslunefnd annars vegar og hins vegar vafamálanefnd, þar sem vafamálin eru tekin fyrir. Í endurgreiðslunefndinni eru tekin fyrir mál sem eru af líkum toga og eru hér til umræðu, þ.e. um frestanir á greiðslum og annað slíkt. Þetta er undirnefnd stjórnarinnar og það er skipaður einn frá meiri hluta og einn frá minni hluta. Í þessu tilfelli var náttúrlega farið eftir reglum sjóðsins, þ.e. samþykkt í stjórninni. Þetta var samþykkt samhljóða og farið var eftir þeim reglum sem gilda, bæði varðandi tekjuviðmið og tíma.

En ég vil taka undir það með hæstv. menntmrh. að mjög óeðlilegt er að fjalla um eitt og eitt mál af þessum toga hér á þinginu. Málin eru mörg. Fyrir þessa nefnd koma mál sem bergmála vandamál margra einstaklinga í þjóðfélaginu og hefur nefndin reynt að taka á þeim af mikilli mildi.