Innheimta skuldar við LÍN

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:17:18 (4528)

2002-02-13 15:17:18# 127. lþ. 77.8 fundur 463. mál: #A innheimta skuldar við LÍN# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa komið fram með þessa fyrirspurn og átel það að menn skuli vera að amast við því. Hér er mál á ferðinni sem umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um og komist að þeirri niðurstöðu að það eigi að taka til endurskoðunar. Menn hafa samt sem áður haldið áfram innheimtuaðgerðum. Mér finnst full ástæða til þess að slík mál komi hér. Hér hafa engin nöfn verið nefnd. Málið er af því tagi að það er gott að Alþingi hafi af því fulla vitneskju að slík mál séu á ferðinni. Ég sé enga ástæðu fyrir menn að bera sig upp undan því að hér komi slík mál til umræðu, síst þeir sem eiga þar um að fjalla. Þeir verða auðvitað að bera þá krossa sem á þá er lagðir í því starfi sem þeir hafa tekið að sér. Hæstv. ráðherra kemst ekkert undan því. Þess vegna er gott að þetta mál skuli hafa komið hér til umræðu.