Álagning skatta

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:26:28 (4532)

2002-02-13 15:26:28# 127. lþ. 77.9 fundur 380. mál: #A álagning skatta# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Að því er varðar fyrstu spurningu hv. þm. er rétt að taka fram að samkvæmt 111. gr. laga um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981, þá frestar áfrýjun skattákvörðunar eða deila um skattskyldu ekki eindaga tekju- eða eignarskatts né leysir undan neinum þeim viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans. Jafnframt kemur fram í sömu grein að fjmrh. geti vikið frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á. Þeirri heimild hefur verið mjög sparlega beitt og þá einvörðungu í þeim tilvikum þar sem um er að ræða stefnumarkandi mál þar sem vafi var talinn leika á túlkun skattalaga og þá til að firra ríkissjóð skaðabótaábyrgð ef málið skyldi tapast.

Í framkvæmd hafa innheimtumenn haft meðalhófsregluna að leiðarljósi við túlkun ákvæðisins ef þeir hafa haft upplýsingar um að gjaldandinn hafi sent inn kæru vegna viðkomandi álagningar eða áætlunar. Kæra gjaldenda á áætlun skattstjóra er í formi framtals. Gjaldandi lætur innheimtumanni að jafnaði í té afrit af framtali sem hann hefur skilað til skattstjóra. Þá hefur þeirri vinnureglu verið beitt, sé framtalið frá löggiltum endurskoðanda eða sérfræðingi, að innheimtumaður hafi samband við skattstjóra og innheimtumaður innheimti á grundvelli þess framtals, en ekki álagningar, þar til kæran hefur verið úrskurðuð.

Í þeim tilfellum þar sem gjaldendur hafa talið fram og komið með staðfestingu frá skattstjóra um að þeir hafi skilað inn framtali, hafa innheimtumenn haft samband við viðkomandi skattstjóra og óskað eftir að hann áætlaði hver fjárhæð álagningar yrði eftir afgreiðslu viðkomandi kæru. Sú fjárhæð hefur síðan verið lögð til grundvallar greiðsluáætlun og launaafdrætti hjá viðkomandi gjaldanda og/eða maka hans.

Í þeim tilfellum þar sem farið hefur fram fjárnám, hefur því verið þinglýst og síðan beðið með frekari aðgerðir, svo sem nauðungarsölu, þar til niðurstaða kæru liggur fyrir. Verði niðurstaða fjárnáms að eignir einstaklings hrökkvi ekki fyrir skuldum þannig að það sé árangurslaust og gjaldandinn skilar síðan inn framtali sem leiðir til lækkunar á álagningu og gerir samning um eftirstöðvar við innheimtumann, getur hann fengið yfirlýsingu um það efni sem hann skilar síðan inn til aðila eins og Lánstrausts.

Almenna reglan í dag er að einstaklingar eru ekki settir í gjaldþrotaskipti nema ef innheimtumaður telur að viðkomandi gjaldandi hafi reynt að skjóta undan eignum. Þó skal tekið fram að ekki er heimildarákvæði í lögum um tekjuskatt og eignarskatt til að dæma gjaldendur í fangelsi vegna vanskila á þeim gjöldum.

Að því er varðar aðra spurningu þingmannsins er rétt að taka eftirfarandi fram:

Eins og kom fram í svari við fyrstu spurningu vita innheimtumenn oft ekki hvort skattgreiðendur hafa lagt inn kærur fyrr en skattbreyting kemur inn í tekjubókhaldskerfi ríkissjóðs. Eins og fyrirkomulagið var gat komið fyrir að gjaldendur misstu eigur sínar og yrðu gjaldþrota á grundvelli áætlana skattstjóra. Hins vegar hafa vinnureglur innheimtumanna nú verið bættar þannig að í dag á slíkt ekki að koma til nema þegar gjaldandi hefur sýnt af sér algjört áhugaleysi við að telja fram og í engu sinnt ábendingum frá innheimtumanni. Gjaldendur sem hafa fengið á sig árangurslaust fjárnám, en sem skila síðar framtali sem leiðir til lækkunar á álagningu og gera samning um eftirstöðvar við innheimtumenn, geta fengið yfirlýsingu um það sem þeir síðan skila til aðila eins og Lánstraust eins og áður sagði.

Að því er varðar þriðju spurningu þingmannsins þá er gjaldanda tilkynnt um skattbreytingar einum degi áður en breytingin er færð inn í tekjubókhaldskerfi ríkissjóðs. Skattbreytingar sem byggja á ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt og tryggingagjald eru hins vegar færðar inn einu sinni í viku. Aðrar skattbreytingar eru færðar inn daglega. Með þessu fyrirkomulagi eiga gjaldandinn og innheimtumaður að fá upplýsingar um skattbreytingar nánast samtímis. Þar með á það ekki að koma fyrir að innheimtumaður sé að innheimta hærri álagningu en skatturinn hefur ákvarðað.

Herra forseti. Þetta eru hin efnislegu svör við spurningum þingmannsins um þessi atriði, um það hvernig framkvæmd þessara mála er fyrir komið hjá innheimtumönnum ríkissjóðs og hvernig samspilið er milli skattstjóra og innheimtumanna.

Ég vil taka það fram að á undanförnum missirum og nokkrum árum hefur fyrirkomulagi þessara mála í verulegum mæli verið breytt til hagsbóta fyrir og í þágu gjaldenda. Hugtakið þjónusta hefur hafið innreið sína inn í þetta kerfi. Mönnum er vísað í þjónustuver, t.d. hjá tollstjóranum í Reykjavík, og þar eru fulltrúar sem reyna að leysa úr vanda viðkomandi aðila í stað þess að auka á hann, reyna að greiða fyrir því að viðkomandi geti staðið í skilum með sín gjöld og bent á leiðir til þess hvernig það megi vera og í einhverjum tilfellum er samið um slíka hluti, þó að sjálfsögðu á jafnræðisgrundvelli.

Ég tel að sú ábending sem fram kom í máli þingmannsins að því er varðar þá sem eiga erfitt um vik með að ganga frá sínum málum eigi auðvitað fyllilega rétt á sér. Og ég bendi á að sérstök þjónusta er veitt á skattstofunum fyrir almenning til þess að ganga frá framtölum sínum og eðlilegt hlýtur að teljast að þeir sem eru í vandræðum með framtöl sín leiti þangað, ef þeir á annað borð vilja standa í skilum eins og flestir auðvitað vilja gera.