Virðisaukaskattsskyldur reikningur

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:40:33 (4537)

2002-02-13 15:40:33# 127. lþ. 77.10 fundur 381. mál: #A virðisaukaskattsskyldur reikningur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Að því er varðar fyrri spurningu hv. þm. er það svo samkvæmt 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að til skattskyldrar veltu skráðs aðila telst öll sala eða afhending vöru og verðmæta gegn greiðslu, svo og seld vinna og þjónusta.

Samkvæmt 13. gr. sömu laga telst til skattskyldrar veltu á hverju uppgjörstímabili heildarskattverð allra vara sem afhentar hafa verið, svo og heildarskattverð allrar skattskyldrar vinnu og þjónustu sem innt hefur verið af hendi á tímabilinu.

Ef gefinn er út reikningur vegna afhendingar telst hún hafa farið fram á útgáfudegi reiknings enda sé reikningur gefinn út fyrir eða samtímis afhendingu.

Skattskyldir aðilar skulu greiða í ríkissjóð mismun útskatts og innskatts hvers uppgjörstímabils en sé innskattur hærri en útskattur skal ríkissjóður endurgreiða mismuninn. Greiði gjaldandi ekki á tilskildum tíma sætir hann álagi og ber jafnframt að greiða dráttarvexti ef skatturinn er ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga. Afhendingartími vörunnar eða hvenær vinna eða þjónusta er innt af hendi ákvarðar þannig hvað telst til skattskyldrar veltu á hverju uppgjörstímabili og þar með til útskatts en ekki það tímamark þegar reikningur er greiddur enda ber seljanda sem veitir gjaldfrest að gefa út reikning við sérhverja sölu eða afhendingu.

Sé virðisaukaskattur sem til er kominn vegna viðskipta sem síðar lenda í vanskilum greiddur á gjalddaga er því ekki um það að ræða að lagt sé álag eða dráttarvextir á gjaldanda vegna þess að hann getur ekki, samanber framansagt, beðið með að greiða virðisaukaskattinn þar til reikningurinn fæst greiddur.

Við uppgjör skattskyldrar veltu er seljanda heimilt að draga frá 80,32% af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum, enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til skattskyldrar veltu, ellegar 87,72% þegar um er að ræða sölu í lægra skattþrepi. Fáist fjárhæðin síðar greidd skal hún í sömu hlutföllum talin til skattskyldrar veltu á því tímabili þegar hún fæst greidd.

Í 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, er fjallað um hvenær krafa telst töpuð og fellur þar t.d. undir ef sýnt þykir að krafan fáist ekki greidd vegna t.d. gjaldþrots skuldara, eða ítrekaðar innheimtutilraunir, þar með talið annarra kröfuhafa, hafa ekki borið árangur.

Að því er varðar síðari spurningu hv. þm. um sambærilegan kostnað vegna tekjuskatts er eftirfarandi að segja:

Samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal að jafnaði telja tekjur til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa vegna þeirra á hendur einhverjum nema um óvissar tekjur sé að ræða. Framangreind regla þýðir að gjaldanda ber að færa sem tekjur unna þjónustu sem hann hefur gefið út reikning fyrir þrátt fyrir að reikningurinn sé enn ógreiddur af hálfu þjónustukaupa. Skattstjóri leggur á tekjuskatt í samræmi við þær tekjur sem gjaldandi gerir grein fyrir í framtali sínu. Meðal þeirra tekna geta verið tekjur sem ekki eru orðnar tekjur í hendi gjaldanda, samanber regluna í 2. mgr. 60. gr., þ.e. reikningur sem ekki hefur enn verið geiddur. Gjaldandinn getur orðið fyrir tilteknum kostnaði ef þjónustukaupandi greiðir ekki reikninginn. Gjaldandinn þarf hugsanlega að fara í kostnaðarsamar innheimtuaðgerðir, svo sem að ráða sér lögmann, og lendir jafnvel í að greiða dráttarvexti ef hann getur ekki greitt tekjuskattinn á réttum tíma. Gjaldandanum er heimilt að gjaldfæra lögmannsþóknun og annan innheimtukostnað á því ári sem hann fellur til, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um að frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi megi draga rekstrarkostnað sem eru þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær eða halda þeim við. Jafnframt er heimilað í 2. mgr. 3. tölul. 31. gr. að færa útistandandi viðskiptakröfur og lánveitingar í árslok niður um 5% og telja þá fjárhæð til frádráttar skattskyldum tekjum.

Að síðustu má nefna að á því tekjuári þegar ljóst er að krafa gjaldandans í hendi þjónustukaupa muni aldrei fást greidd er honum heimilt að gjaldfæra kröfuna í rekstrinum, sbr. 13. og 14. gr. umræddrar reglugerðar, sem frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.