Innheimtulög

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:48:40 (4540)

2002-02-13 15:48:40# 127. lþ. 77.11 fundur 394. mál: #A innheimtulög# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. viðskrh. um hvort ráðherrann hæstv. telji þörf á sérstakri löggjöf um innheimtuaðgerðir til hagsbóta fyrir neytendur til að tryggja hag skuldara líkt og er í gildi annars staðar á Norðurlöndum.

Frv. til laga um innheimtustarfsemi hefur verið lagt fram hér á Alþingi þrívegis að mig minnir. Markmiðið með slíkum lögum er að setja ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. ákvæði um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun og draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara vegna innheimtuaðgerða á frumstigi, t.d. með því að takmarka í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar, sem heimilt er að krefja hann um.

Ákvæðið sem ég nefni hér er afar mikilvægt. Ég vil rifja upp í tengslum við þessa fyrirspurn að fyrir þremur árum kom slíkt frv. viðskrh. m.a. hér fyrir þingið ásamt frv. þáv. dómsmrh. um lögmenn. Nokkrar deilur urðu m.a. í nefnd sem fjallaði um þetta mál, allshn., um ákvæði í frv. um lögmenn, sem fjallaði um að dómsmrh. gæti að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands gefið út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald sem þeim sé hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af innheimtu peningakröfu. Óheimilt væri lögmönnum að nota leiðbeiningar þessar í öðrum tilgangi.

Vegna þessa ákvæðis var m.a. frv. um innheimtulög frestað en í því er miklu markvissara ákvæði sem felur í sér vernd gagnvart neytendum. Samkvæmt því var gert ráð fyrir að viðskrh. gæti í reglugerð ákveðið hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar sem heimilt væri að krefja skuldara um samkvæmt lögum þeim. Skyldi fjárhæðin taka mið af öllum þeim kostnaði sem kröfuhafi yrði fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur gæti talist.

Samkeppnisstofnun hafði einmitt gert athugasemdir við það fyrirkomulag sem gilti um innheimtu lögmanna. Hún taldi að setja þyrfti slíkt ákvæði sem gert var ráð fyrir í frv. um innheimtulög. Niðurstaðan varð sú að á þingi 1998 var lögfest ákvæði sem var til bráðabirgða í frv. um lögmenn en þegar lögin um innheimtulög hefðu verið samþykkt átti það ákvæði að gilda sem ég hef lesið hér.

Nú er þetta ákvæði í lögum um lögmenn enn í gildi og ekki hafa verið settar neinar leiðbeinandi reglur varðandi innheimtu lögmanna. Því spyr ég hæstv. ráðherra um þessi lög. Hér er um að ræða afar mikilvæga neytendalöggjöf. Ég hef því lagt fyrir hæstv. ráðherra fsp. í þremur töluliðum sem ég vænti að ráðherra svari við þessa umræðu.