Innheimtulög

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:51:53 (4541)

2002-02-13 15:51:53# 127. lþ. 77.11 fundur 394. mál: #A innheimtulög# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhanna Siguðardóttir leggur fsp. fyrir mig á þskj. 651, um innheimtulög. Varpar hún þar fram þremur spurningum. Fyrsta spurningin er svona, með leyfi forseta:

,,Telur ráðherra þörf á sérstakri löggjöf um innheimtuaðgerðir til hagsbóta fyrir neytendur og til að tryggja hag skuldara, líkt og er í gildi annars staðar á Norðurlöndunum?``

Svarið er eftirfarandi: Fyrst vil ég segja að svarið er já. Ég tel þörf á slíkri löggöf enda ýmis dæmi sem sýna að þörf er á að taka á þessum málum með föstum hætti. Málið snertir einnig stóran hóp fólks sem hefur erfiða eða jafnvel enga samningsstöðu gagnvart lánardrottnum eða umboðsmönnum þeirra.

Ég vil minna á að á 122. og 123. löggjafarþingi lagði þáv. viðskrh. fram frv. til innheimtulaga. Var þá einnig talið að þörf gæti verið fyrir sérstaka löggjöf um þetta efni. Lagafrv. var einkum byggt á norskum lögum en einnig tekið mið af lögum í Svíþjóð og lagafrumvarpi í Danmörku. Ýmsar athugasemdir voru gerðar við frv. við meðferð málsins á Alþingi, m.a. af hálfu Lögmannafélags Íslands, sem lýsti andstöðu við heimild til handa viðskrh. til að setja reglugerð um hámark innheimtukostnaðar. Það atriði var lykilatriði í lagafrv. en einnig má nefna að gert var ráð fyrir sérstakri viðvörun til skuldara áður en gripið væri til kostnaðarsamra innheimtuaðgerða. Vegna viðbragða þingnefndar náði frv. ekki fram að ganga.

Næsta spurning er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Hvaða fyrirkomulag gildir um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar sem heimilt er að krefja skuldara um, og hvaða reglur telur ráðherra að eigi að gilda í því efni?``

Svarið er: Almennt ríkir frjálsræði um verðlagningu að því er varðar innheimtukostnað og því gilda ekki ákvæði um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar.

Varðandi það hvaða reglur eigi að gilda skal ítrekað að í frumvörpum viðskrh. á sínum tíma var gert ráð fyrir viðvörunum við upphaf innheimtu og heimild viðskrh. til að ákveða hámark margs konar innheimtukostnaðar í reglugerð.

Hvað snertir takamarkanir á hámarki innheimtukostnaðar eru ýmsir kostir fyrir hendi og tveir valkostir nú sérstaklega til athugunar í viðskrn. Annars vegar er um að ræða sama valkost og í frumvörpunum, þ.e. heimild viðskrh. til að ákveða hámark innheimtukostnaðar í reglugerð. Sá kostur varð fyrir valinu á hinum Norðurlöndunum, eins og ég hef vikið að, og tel ég hann skynsamlegan. Einnig er annar valkostur til athugunar, þ.e. að sleppa reglugerðarheimildinni en hafa í staðinn ákvæði um sérstaka úrskurðarnefnd um kvartanir. Þá er sá hængur á að nefndin hefði ekki við neinar ákveðnar fjárhæðir að styðjast til að komast að niðurstöðu. Úr því kynni að mega bæta með heimild viðskrh. til að gefa út leiðbeiningar um innheimtukostnað.

Þriðja spurningin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Hver er skýringin á því að frumvarp til innheimtulaga sem lagt var fram á 122. og 123. löggjafarþingi hefur ekki verið lagt fram aftur og mun ráðherra beita sér fyrir því að það verði lagt fram á yfirstandandi þingi?``

Svarið við spurningunni hefur þegar komið fram. Það er: Verið er að huga að endurskoðun frv. í viðskrn. Ekki er ljóst á þessari stundu hvenær slíkri endurskoðun lýkur en málið verður metið í ljósi þeirra athugasemda sem komið hafa fram og enn geta borist.