Undanþága frá banni við samkeppnishömlum

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:01:35 (4544)

2002-02-13 18:01:35# 127. lþ. 77.12 fundur 461. mál: #A undanþága frá banni við samkeppnishömlum# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:01]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Eins og menn vita hefur víða út um landið hallað töluvert á varðandi þjónustu vegna fólksfækkunar sem hefur orðið. Þetta hangir hvort með öðru. Fólksfækkunin gerir það að verkum að erfitt er að halda úti almennri þjónustu og síðan öfugt og það hefur gert það að verkum að víða hafa menn staðið í nokkrum vandræðum.

Sums staðar hafa olíufélögin kosið að hafa þjónustu sína með þeim hætti að kannski eitt þeirra hefur verið á einum stað, annað á öðrum stað. Sums staðar hafa þau kosið að vera með samrekstur á olíustöðvum sínum. Þetta hefur í rauninni verið forsenda fyrir því að hægt hefur verið að halda úti starfseminni á minnstu stöðunum. Ég held, virðulegi forseti, að það sé afar brýnt að þetta geti haldið svona áfram til þess að við getum varið þessa þjónustu, við getum sagt á vissan hátt grunnþjónustu í nútímasamfélagi sem er rekstur bensínstöðva og olíustöðva út um landið.

Nú vaknar sú spurning hvort menn telji það á einhvern átt ógnun við samkeppnina að lítil byggðarlög búi við það að aðeins eitt olíufélag starfi þar eða búi við samrekstur tveggja eða þriggja olíufélaga. Ég er a.m.k. ekki í nokkrum vafa um að þetta sé ekki mjög alvarleg ógnun við samkeppnina í landinu og held þvert á móti að mjög mikilvægt sé að þetta fyrirkomulag geti haldið áfram til þess að tryggja að þessi mikilvæga þjónusta haldi áfram úti á landsbyggðinni.

Ég vek í þessu sambandi athygli á 16. gr. samkeppnislaganna sem raunar er vitnað til í fyrirspurn minni þar sem eru til staðar býsna rúmar undanþáguheimildir fyrir samkeppnisráð að veita. Láti einhver sér detta í hug að finna að því að olíufélag starfi eitt á tilteknum stað eða að olíufélögin komi sér saman um samrekstur einhverra olíustöðva þá er að mínu mati mjög mikilvægt að samkeppnisráð bregðist þannig við þessu máli að það veiti undanþágu, sé eftir því leitað, frá þessum almennu reglum samkeppnislaganna, eins og 16. gr. heimilar.

Virðulegi forseti. Þetta er í rauninni aðdragandi eða tildrög þess að ég kaus að leggja þessar tvær fyrirspurnir á þskj. 741 fyrir hæstv. ráðherra, þ.e. að ég tel mjög mikilvægt að fram komi sem sjónarmið yfirmanns samkeppnismála í landinu að hér sé um að ræða nauðsynlega starfsemi og eðli málsins sé þannig oft og tíðum að ekki sé hægt að búast við því að virk samkeppni verði milli margra aðila á mjög litlu markaðssvæði. Þess vegna hef ég lagt þessar tvær fyrirspurnir fyrir hæstv. ráðherra sem eru á fyrrnefndu þingskjali.