Undanþága frá banni við samkeppnishömlum

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:06:53 (4545)

2002-02-13 18:06:53# 127. lþ. 77.12 fundur 461. mál: #A undanþága frá banni við samkeppnishömlum# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:06]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Á þskj. 741 hefur hv. 1. þm. Vestf., Einar K. Guðfinnsson, beint til mín svohljóðandi fyrirspurn, með leyfi forseta:

,,Hefur olíufélögunum verið veitt undanþága skv. 16. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, með síðari breytingum, til að standa saman að rekstri bensínstöðva í litlum bæjarfélögum á landsbyggðinni? Ef ekki, hvaða rök liggja að baki þeirri ákvörðun?``

Samkvæmt upplýsingum frá Samkeppnisstofnun hafa olíufélögin ekki óskað eftir undanþágu á grundvelli 16. gr. samkeppnislaga frá ákvæðum 10. gr. laganna sem bannar m.a. samninga og samstarf fyrirtækja sem hafa það að markmiði eða hafa þau áhrif að samkeppni er raskað eða hún takmörkuð. Þar sem félögin hafa ekki óskað eftir undanþágu um sameiginlegan rekstur á bensínstöðvum hefur slík undanþága eðli málsins samkvæmt ekki verið veitt.

Önnur spurning er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Getur slíkur samrekstur ekki verið forsenda þess að unnt sé að halda uppi eðlilegri þjónustu á þessu sviði í fámennari byggðarlögum?``

Svarið er eftirfarandi: Þar sem ekki hefur verið óskað undanþágu til sameiginlegs rekstrar á bensínstöðvum hefur aldrei á það reynt fyrir samkeppnisyfirvöldum hvort slíkur samrekstur er forsenda eðlilegs þjónustustigs í fámennum byggðarlögum. Þar af leiðandi er ekki unnt að gefa efnislegt svar við spurningunni.