Undanþága frá banni við samkeppnishömlum

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:08:45 (4546)

2002-02-13 18:08:45# 127. lþ. 77.12 fundur 461. mál: #A undanþága frá banni við samkeppnishömlum# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:08]

Ásta Möller:

Herra forseti. Samkvæmt upplýsingum mínum er samrekstur olíufélaga á bensínstöðvum á landsbyggðinni á undanhaldi og í dag eru u.þ.b. 12 slíkar stöðvar starfandi. Það er ljóst að lítil bæjarfélög með um 1.000 íbúa eða þar um kring standa ekki undir rekstri fleiri en einnar stöðvar þótt slíkt sé óheppilegt út frá samkeppnissjónarmiði. Samrekstur bensínstöðva er því augljós kostur fyrir íbúa þótt markaðslega sé hann úrelt fyrirbrigði.

Við höfum einnig séð að bensínstöðvar með þjónustu eru á undanhaldi jafnt í strjálbýli sem þéttbýli og aukin áhersla hefur verið lögð á sjálfsafgreiðslu og kortasjálfsala. Því má velta fyrir sér í því sambandi hvort tæknin og þróunin muni ekki leysa þetta mál sem hér er verið að ræða og að sjálfssalar, þess vegna fleiri en eins olíufélags, taki við af kostnaðarsamri þjónustu á sama hátt og hraðbankar hafa leyst bankagjaldkera af hólmi varðandi lausafé og greiðslu reikninga.