Álver á Reyðarfirði

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:33:54 (4557)

2002-02-13 18:33:54# 127. lþ. 77.14 fundur 471. mál: #A álver á Reyðarfirði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:33]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég er eiginlega dálítið hissa á þeim úrtölum sem hér koma fram hjá hv. þingmönnum sem ég hefði álitið og trúi að séu stuðningsmenn þessa verkefnis, þ.e. að vera með þennan tón að haldið sé rangt á málum. Auðvitað er haldið vel á þessu máli af hálfu iðnrn. Við erum að vinna í samræmi við yfirlýsingu frá 24. maí árið 2000. Sú yfirlýsing gengur einfaldlega út á það að við erum að vinna með Norsk Hydro. Á meðan við erum að vinna með þeim í þessu mikilvæga verkefni þá vinnum við með þeim af fullum heilindum. Við erum ekki að vinna með öðrum á meðan. Þess vegna finnst mér tónn eins og hér heyrist hjá þessum stuðningsmönnum Noral-verkefnisins, ef ég skil þá rétt, ekki eiga rétt á sér. Mér finnst eins og verið sé að gefa í skyn að við séum ekki að vinna að þessu í fullri alvöru í iðnrn. og það er svo sannarlega ekki ástæða til þess að koma með slíkar ásakanir á okkur, (Gripið fram í.) því að svo er ekki.

En vegna þess hins vegar að álheimurinn er nú ekkert óskaplega stór þá vita allir af því að þessi áform eru hér uppi og ég er ekki í nokkrum vafa um að ef svo ólíklega færi að ekki yrði af þessu sem kallað hefur verið Noral-verkefni og ekki verði af því að Norsk Hydro fari í þessa fjárfestingu þá eru aðrir tilbúnir að koma og taka þátt í þessu. Það er ég sannfærð um. Ég vinn hins vegar ekki með öðrum aðilum meðan Norsk Hydro sýnir fullan áhuga og er að vinna samkvæmt yfirlýsingu frá 24. maí árið 2000.