Ferjusiglingar Herjólfs milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:36:18 (4558)

2002-02-13 18:36:18# 127. lþ. 77.16 fundur 409. mál: #A ferjusiglingar Herjólfs milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:36]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Samgöngur milli lands og Eyja hafa verið mjög til umræðu á undanförnum vikum og mánuðum. Meðan sú umræða stóð yfir lagði ég fram fyrirspurn sem hefur ekki verið hægt að svara vegna anna hér í þinginu í tvær til þrjár vikur.

Á þeim tíma sem liðið hefur frá því að fyrirspurnin var lögð fram hefur verið gert ákveðið samkomulag milli samgrn., hæstv. samgrh. og bæjarstjórnar Vestmannaeyja sem hefur falið í sér ýmsar leiðréttingar sem ég verð var við að bæjarstjórnin og fólk í Vestmannaeyjum er tiltölulega ánægt með. Auðvitað hlýtur það samt alltaf að vera markmiðið þegar um svo stóran og öflugan bæ eins og Vestmannaeyjabæ er að ræða, að efla þær samgöngur sem nýtast bæði atvinnulífi og fólkinu sem mest. Þar hlýtur maður að horfa fyrst og fremst á samgöngur með Herjólfi sem tryggir aðgang fólks að vörum og þjónustu með öruggasta hætti sem hægt er að ímynda sér og er eitthvað sem allir sjá að tryggir einnig það öryggi sem fólk sækist eftir.

Ég fagna því samkomulagi sem hæstv. samgrh. hefur gert í þessu máli og efast ekki um að þær breytingar eigi eftir að gagnast Vestmanneyingum. Ég vil samt leggja áherslu á það að mér fyndist að það ætti að skoða það hvernig hægt væri að nýta Herjólf betur en gert er í dag. Ljóst er að hann getur farið mun fleiri ferðir þó svo að ýmsar tölulegar upplýsingar segi okkur að nýtingin á skipinu sem slíku sé ekki það mikil að það geti talist hagkvæmt. Ég vil nú samt minna á að margt hefur gerst í rekstri skipsins sem hefur lækkað kostnað ríkisins, t.d. það að útboðið sem gert var á rekstri Herjólfs sparaði ríkissjóði, miðað við það tilboð sem kom á móti, 64 millj. kr. á ári. Mér finnst eðlilegt að sá sparnaður verði notaður til þess að bæta samgöngur til Eyja og tryggja að þessi ferðamáti verði eins kostnaðarlega hagkvæmur fyrir fólk og fyrirtæki á staðnum og kostur er.

Vegna þessa alls hef ég lagt fram þær fyrirspurnir sem hér liggja fyrir, herra forseti:

,,1. Hver er kostnaður við ferjusiglingar Herjólfs milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar miðað við núverandi áætlun og hve margar ferðir eru á viku?

2. Verður ferðum fjölgað í tvær á sólarhring alla daga vikunnar?

3. Hvaða kostnaðarauki mun fylgja því að fjölga ferðum í tvær á dag allt árið?

4. Hvernig verða ferjusiglingar á meðan Herjólfur er í slipp?``