Ferjusiglingar Herjólfs milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:39:42 (4559)

2002-02-13 18:39:42# 127. lþ. 77.16 fundur 409. mál: #A ferjusiglingar Herjólfs milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:39]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. hefur gert grein fyrir fyrirspurnum sínum. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þann áhuga sem hann sýnir þessu mikilvæga samgöngutæki sem Herjólfur er fyrir Vestmannaeyjar.

Svar mitt við fyrstu spurningu hv. þm. er: Samningur við Samskip hljóðar upp á um 65 millj. kr. á ári fyrir fastar ferðir. Vegagerðin hefur greitt um 70 millj. fyrir árið 2001 og eru 5 millj. kr. vegna fjölgunar ferða umfram áætlun, miðað við útboðið, að stærstum hluta vegna mánudagsferða í sumar sem leið. Vegagerðin greiðir til viðbótar tryggingar fyrir skipið o.fl. þannig að styrkur vegna reksturs ferjunnar er um 75 millj. kr. og afborganir og vextir um 190 millj. kr. á ári.

Í sumaráætlun eru tvær ferðir á fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum. Frá 11. júní til 3. sept. eru einnig tvær ferðir á mánudögum og er það nýjung sem kom til fyrst á árinu 2001. Aðra daga er ein ferð eins og samningar hafa verið til þessa.

Í vetraráætlun eru tvær ferðir á föstudögum og sunnudögum en ein aðra daga. Tímabilið 16. desember til 1. mars eru ekki farnar tvær ferðir á föstudögum eins og verið hefur.

Í annan stað er spurt:

,,Verður ferðum fjölgað í tvær á sólarhring alla daga vikunnar?``

Svar mitt er: Samkvæmt útboðslýsingu verður áætlun ekki breytt nema í samkomulagi aðila, þ.e. Vegagerðar, Samskipa og bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Það var samkvæmt útboðslýsingunni. Þegar hefur verið bætt við aukaferð á mánudögum yfir sumartímann í samkomulagi milli aðila.

Þegar ákvarðanir um slíkt eru teknar verður að liggja fyrir mat á þeirri þörf sem fyrir hendi er að sjálfsögðu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem aflað hefur verið er nýting á skipinu nú þannig að telja verður eftirspurn fullnægt. Hins vegar þarf að sjálfsögðu að bregðast við þegar mikið álag verður umfram það sem venja er.

Benda má á að fengist hefur heimild til þess að fækka í áhöfn að vetrarlagi og byggir sú heimild fyrst og fremst á að nýting skipsins er með þeim hætti að slíkt væri hægt að heimila. Auðvitað er það samt þannig að nú sem fyrr verður brugðist við sérstökum aðstæðum sem skapast, t.d. um verslunarmannahelgi eða á íþróttamótum, og bætt við ferðum eftir þörfum.

Nokkrar viðræður hafa átt sér stað að undanförnu milli Vegagerðarinnar og bæjarstjórnar Vestmannaeyja um mögulega fjölgun ferða. Þær viðræður hafa verið jákvæðar og hefur náðst samkomulag sem verið er að ganga frá, en á þessu stigi er ekki hægt að greina nánar frá því í smáatriðum þar sem enn er unnið að lokafrágangi þess samkomulags. En það gerir ráð fyrir verulega mikilli fjölgun ferða í samræmi við þær óskir sem hafa komið upp af hálfu Eyjamanna.

,,Hvaða kostnaðarauki mun fylgja því að fjölga ferðum í tvær á dag allt árið?``

Svarið mitt er er:

Líkt og þingheimur veit mætavel sjá Samskip um rekstur Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs á grundvelli útboðs. Í útboðsgögnum sem unnin voru í nánu samkomulagi við Vestmannaeyjabæ og tóku að flestu leyti mið af þáverandi rekstri var ferðafjöldi á dag nákvæmlega skilgreindur. Að fjölga ferðum í tvær á dag alla daga vikunnar þýðir óhjákvæmilega verulegar breytingar á forsendum þannig að það þarf að semja um það á grundvelli útboðsgagna og þeirra lýsinga sem þar er um að ræða. Það hefur verið gert og er verið að vinna að núna þannig að á þessu stigi get ég ekki gefið nánari upplýsingar um þessar fjárhæðir. En vætanlega áður en langt um líður gæti ég svarað slíkri fyrirspurn nánar þegar búið verður að ganga frá samningnum við verktakann.

Í fjórða lagi:

,,Hvernig verða ferjusiglingar á meðan Herjólfur er í slipp?``

Svarið mitt er:

Flokkunarfélag skipsins, Norske Veritas, hefur nú staðfest að heimilt sé að fresta slippstöku Herjólfs fram á næsta haust en einnig þarf leyfi Siglingastofnunar og eru þær viðræður í gangi. Það kemur sér vel ef allar heimildir fást þar sem þá er minni hætta á að brotthvarf skipsins hafi áhrif á komu ferðamanna til Vestmannaeyja. Þessi ákvörðun liggur nánast fyrir þannig að við gerum ráð fyrir að Breiðafjarðarferjan Baldur leysi Herjólf af þegar Herjólfur fer í slipp og það er talið fullnægjandi. Þess ber að geta að djúpbáturinn Fagranes leysti Herjólf af á sínum tíma. En Baldur er stærri og fullkomnari ferja en Fagranesið var þannig að ég tel að með þessu sé hægt að leysa af hendi þá mikilvægu þjónustu sem siglingar Herjólfs til Eyja eru á fullkomlega viðunandi hátt.