Val á skipi til að sinna áætlunarsiglingum Herjólfs tímabundið

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:55:00 (4566)

2002-02-13 18:55:00# 127. lþ. 77.17 fundur 415. mál: #A val á skipi til að sinna áætlunarsiglingum Herjólfs tímabundið# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Skemmst er frá því að segja, vegna fyrirspurnar hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar, að af minni hálfu hefur aldrei komið til að greina að skemmtibátur yrði látinn leysa Herjólf af, hversu vel sem hann kann að nýtast í siglingum innfjarða. Þarna er um að ræða miklu stærra verkefni en svo að hægt sé að tefla fram hvalaskoðunarbát þannig að það hefur af minni hálfu aldrei komið til greina þó að vel geti verið að einhverjum hafi dottið það í hug, enda liggur fyrir, og ég gerði grein fyrir því hér í svari við fyrirspurn áðan, að við gerum ráð fyrir því að fresta slipptökunni í fullu samráði við flokkunarfélögin og Siglingastofnun og að Breiðafjarðarferjan Baldur sinni þessu verkefni.

Spurt er í öðru lagi hvort komi til greina að kanna möguleika á að nota stærra og öflugra skip með bíla dekki til að hægt sé að ferja bíla um leið og farþega á meðan Herjólfur er í slipp.

Svarið er: Fyrir liggur að mjög erfitt er að fá sambærilegt skip og Herjólf til leigu í svo stuttan tíma sem hér um ræðir. Frumathuganir sem gerðar hafa verið í Norður-Evrópu benda til að fáist slíkt skip á annað borð, sem ekki liggur fyrir, geti kostnaður numið meira en 40 millj. kr. í umræddar tvær vikur. Þetta er tala sem svarar til um sjö mánaða rekstrarframlags Vegagerðarinnar til Samskipa og að mínu mati væri slíkt ekki forsvaranlegt nema annarra kosta væri ekki völ.

Í þriðja lagi er spurt: Hefur verið athugað hvort möguleiki sé að leigja t.d. loftpúðaskip til þessara flutninga í tilraunaskyni?

Svar mitt er: Siglingaleiðin milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar er svonefnd b-siglingaleið í ljósi umtalsverðrar hárrar kenniöldu og eru því meiri kröfur um smíði og öryggi farþegaskipa gerðar á slíkum siglingaleiðum en á öðrum hafsvæðum. Svifnökkvar hafa verið í notkun í áætlunarferðum við Bretland og víðar frá því í byrjun sjöunda áratugarins. Í fyrstu voru þeir notaðir til farþegaflutninga en síðar til flutninga á farþegum og bílum. Stærstu svifnökkvar geta flutt á fjórða hundrað farþega og um 30--50 bíla. Ölduhæðar- og veðurmörk fyrir svifnökkva í áætlunarflutningum liggja milli 2 og 3,5 metra í kenniöldu á rúmsjó og 17--25 metra vindhraða, háð stærð og búnaði nökkvanna.

Í upplýsingum frá Siglingastofnun kemur fram að ölduhæðarmælingar á þessu hafsvæði, þ.e. í Surtseyjardufli, sýna að kennitala öldunnar er 2,5 metrar eða lægri í 72--80% tilvika mánuðina maí--ágúst. Í öðrum mánuðum væru frátafir miklar miðað við fyrrnefndar forsendur. Hér skal tekið fram að ekki liggja fyrir öldufarsreikningar frá Surtseyjardufli að Bakkafjöru, en þær eiga að liggja fyrir inna tveggja mánaða. Enn fremur er æskilegt að mæla ölduhæð með dufli undir Bakkafjöru til að fá gleggri upplýsingar um öldufar og til þess að gætt sé fyllsta öryggis við mat á lendingu svifnökkva.

Eins og fyrr sagði er siglingaleiðin milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar svonefnd b-siglingaleið. Ekki er vitað til að til séu loftpúðaskip til farþegaflutninga, samkvæmt þeim uplýsingum sem ég hef, sem uppfylla lágmarkskröfur sem gerðar eru til skipa er sigla á b-siglingaleiðum. Svarar þetta væntanlega fyllilega fyrirspurn hv. þm.

Að gefnu tilefni vil ég upplýsa að ég hef ákveðið að skipa starfshóp sem hafi það verkefni að hafa umsjón með rannsóknum á Bakkafjöru með tilliti til lendingaraðstöðu og jafnframt að skoða þá kosti sem til greina koma við val á skipi til að þjóna á siglingaleiðinni milli lands og Eyja. Ég tel afar mikilvægt að hugsa til framtíðar hvað varðar siglingar milli lands og Eyja og að á hverjum tíma verði það skoðað vandlega og rækilega hvaða leiðir séu bestar við val á skipum. Það er óhjákvæmilegt að standa þannig að þjónustu við Vestmannaeyjar hvað varðar siglingar og flutninga á fólki og vörum að ekki fari á milli mála að þar sé staðið eins vel að verki og nokkur kostur er og ég tel að það sé gert í dag.