Niðurfelling veggjalds í Hvalfjarðargöng

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:04:32 (4570)

2002-02-13 19:04:32# 127. lþ. 77.19 fundur 444. mál: #A niðurfelling veggjalds í Hvalfjarðargöng# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GE
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:04]

Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég ræði um að fella niður gjaldtöku vegna aksturs um göng undir Hvalfjörð og beini máli mínu til hæstv. samgrh.

Ég geng út frá því sem vísu að skoðanir mínar og hæstv. ráðherra fari að mestu saman í þessu máli. Við viljum örugglega báðir, eins og allir aðrir sem hlut eiga að máli, greiða sem mest fyrir samgöngum við Norðvesturland. Einnig ætti að vera jafnauðvelt fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins að velja hvort helgarferðin liggur norður í Borgarnes, á Snæfellsnes eða Akranes, eða þá austur fyrir fjall. Auðveldara val yrði um hvar búseta er best, fyrir sumarhús eða heimili.

Í dag er það þannig að helgarferð hefur í för með sér kostnaðarauka sem nemur a.m.k. 2.000 kr. sé farið til norðurs um Hvalfjarðargöng. Allir sem eiga sumarbústaði, stunda vinnu eða skóla og þurfa frá Reykjavík til Norðvesturlands eða af Norðvesturlandi til Reykjavíkur, búa við gífurlegan kostnaðarauka vegna veggjaldsins um göngin. Þess vegna eru lagðar fram spurningar um þetta mál. Það er ástæða til að velta því fyrir sér hvert jafnræði íbúa landsins er vegna vegagerðar og hvort réttlætanlegt er að vegfarendur um Hvalfjarðargöng hafi greitt á núverandi verðlagi allt að 3 milljarða í virðisaukaskatt á fyrirhuguðum starfstíma Spalar hf., auk 20 milljarða vegna fjárfestinga og reksturs. Þess vegna eru þessar spurningar lagðar fram, virðulegur forseti, sem hér liggja fyrir:

1. Hefur samgönguráðuneytið kannað hvort Vegagerðin gæti yfirtekið að fullu og öllu skuldbindingar Spalar hf. og þar með rekstur Hvalfjarðarganganna, eins og annarra samgöngumannvirkja á Íslandi, og að umferð um Hvalfjarðargöng verði gjaldfrjáls?

2. Til hvaða aðgerða þarf að grípa til að svo geti orðið, lagalegra eða annarra?

3. Hversu miklum tekjum hefur virðisaukaskattur af umferð um Hvalfjarðargöng skilað ríkissjóði síðan þau voru tekin í notkun?

4. Hver er kostnaður ríkissjóðs af göngunum á sama tíma?

5. Telur ráðherra eðlilegt að Snæfellingar, Borgfirðingar og Akurnesingar standi undir meira en helmingsfjármögnun þessa hluta hringvegarins um Ísland?