Niðurfelling veggjalds í Hvalfjarðargöng

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:11:39 (4572)

2002-02-13 19:11:39# 127. lþ. 77.19 fundur 444. mál: #A niðurfelling veggjalds í Hvalfjarðargöng# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:11]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Mig langaði að spyrja hv. fyrirspyrjanda að því hvort honum finnist eðlilegt að tala nú um að fella niður vegatoll af göngunum undir Hvalfjörð, þegar þau voru á sínum tíma lögð í fullu samkomulagi við Vestlendinga og út frá þeirri forsendu að þar yrði lagður á skattur. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort það sé eðlileg leið, að biðja um slíkar framkvæmdir með vegatolli og koma svo tveimur, þremur árum seinna og vilja fá vegatollinn felldan niður.

Hvað með aðrar framkvæmdir sem nú er verið að hugsa um að koma á með vegatolli? Er engu að treysta í þessu efni, hv. þm.? (Gripið fram í.) Gerir hv. þm. þá ráð fyrir því að ef göngin yrðu tekin inn á vegáætlun, það sem eftir á að greiða af þeim, að leggja samhliða niður vegaframkvæmdir á Vesturlandi eða vegabætur næstu 16 árin?