Bann við umskurði stúlkna

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:23:09 (4576)

2002-02-13 19:23:09# 127. lþ. 77.21 fundur 419. mál: #A bann við umskurði stúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:23]

Ásta Möller:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir fyrirspurnina og jafnframt afdráttarlaus svör heilbrrh. í þessum efnum.

Ljóst er að umskurður kvenna er gróft ofbeldi gagnvart konum. Það er framið og réttlætt með tilvísun í hefðir, venjur og trúarsetningar. Umskurður skaðar varanlega kynfæri kvenna. Það er ómanneskuleg meðferð sem hefur skaðleg áhrif á líkamlega og andlega líðan þeirra kvenna sem eru umskornar. Þótt umskurður sé ekki hluti af okkar veruleika hér á landi þá er hann sannarlega hluti af veruleika margra kvenna í heiminum.

Það er hlutverk stjórnvalda að uppræta öll form ofbeldis gagnvart konum og e.t.v. er tímabært, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, í ljósi aukins fjölda útlendinga hér á landi, að skoða sérstaklega réttarstöðu kvenna sem hafa verið umskornar og velta fyrir sér lagasetningu í því sambandi.