Bann við umskurði stúlkna

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:25:23 (4578)

2002-02-13 19:25:23# 127. lþ. 77.21 fundur 419. mál: #A bann við umskurði stúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:25]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að vekja máls á þessu mjög svo alvarlega máli, hroðalegum misþyrmingum á stúlkubörnum. Það að 6 þúsund telpur verði á hverjum einasta degi fyrir svona misþyrmingu hlýtur að skipta okkur máli. Við hljótum að verða að bregðast við og að sjálfsögðu þarf að taka af öll tvímæli um að þetta ofbeldi geti ekki viðgengist.

Spurningin er líka um hvernig við getum lagt lóð okkar á vogarskálarnar til þess að fræða konur og karla í heiminum um að það sé ekki rétt að fara svona með stúlkubörn. Hvernig getum við í sjálfu sér vitað hvort stúlkur eru umskornar hér á landi eða ekki ef þær koma ekki til læknisskoðunar fyrr en þær verða fullorðnar?