Bann við umskurði stúlkna

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:28:01 (4580)

2002-02-13 19:28:01# 127. lþ. 77.21 fundur 419. mál: #A bann við umskurði stúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:28]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég tek undir þakkir til hv. fyrirspyrjanda fyrir að að vekja máls á því hræðilega máli sem fólk hefur rætt hér. Það er sorglegt að svo mikil grimmd skuli vera í heiminum að slíkt sé lagt á lítil stúlkubörn og þau kvalin með þeim aðferðum sem hér hefur verið tæpt á. Það er sannarlega ljótt til þess að vita að ekki skuli hægt að taka fyrir slíkt, banna það algjörlega og hegna þeim sem gera slíkt.

Við höfum séð annars konar hryðjuverk framin á konum líkt og gerðist í Svíþjóð þar sem ung stúlka var drepin vegna þess að hún vildi giftast manni sem ekki var þóknanlegur ættinni. Þá var það einfaldlega ákveðið af karlmönnum ættarinnar hvernig ætti að meðhöndla mótstöðu hennar. Þetta er náttúrlega umræða sem þarf að fá miklu betri tíma en ég lýsi yfir ánægju minni með að hún skuli fara fram hér.